Um allt og ekki neitt

Mikið er nú langt síðan að ég bloggaði, fleiri mánuðir, eða fjórir mánuðir nánar tiltekið.

Eins gott að myndast við að bæta úr þessu, og láta vita af að allt er í góðu lagi með kjellinguna, bara mikið að gera, og í miklu að snúast.

Ég kom heim úr vinnunni í dag, kom trítlandi í hælaskóm og þunnum sumartopp út í einhverja verstu hellirigningu sem að ég man eftir að hafa lent í, enda varð lítið úr fínheitunum eftir nokkrar mínútur, og sagði kunningjakonan sem að náði í okkur tvær, þið lítið út eins og blautir hundar greyin mín.

Spáin er ekki góð næstu daga, en veðurfræðingar hérna eru ekki sammála, sumir spá mikilli rigningu, aðrir ágætis veðri og sól, ég vil helst trúa á sólina, því að ég vil ekki trúa því að sumrið sé búið að yfirgefa okkur hérna á Skáni.

Mikið að gera í vinnunni, og ægilegur hiti eins og venjulega, við erum í sömu múnderingu sumar sem vetur, ágætis föt á veturna, og óþolandi á sumrin.

Barnafólkið fer mikið með okkur, oftast á leið til síns forna heimalands, og er mikil tilhlökkun að hitta vini og ættingja, oftast er keypt mikið Marabou súkkulaði og sænskt brennivín sem gjafir til gamla landsins frá nýja landinu, stundum ilmvatn fyrir frúna, þetta er gert í byrjun ferðarinnar, en þegar að fjölskyldan fer heim aftur, þá er lítið sem ekkert verslað, og fólkið virðist vera orðið hálf þreytt á hvort öðru, og börnin gráta meira en þau gerðu í byrjun ferðarinnar. Kemur til greina að fólk eigi ekki að vera of mikið saman, það er ekki vant því, venjulegar fjölskyldur hittast bara á kvöldin, pabbi og mamma vinna, og börnin eru á leikskóla, eða venjulegum skóla.

Um helgina byrjar svokallað Malmö festival, sem að stendur yfir heila viku, oft getur verið gaman að skreppa í bæinn og tilla sér niður á góðum stað, og horfa á fólkið sem að streymir um götur miðbæjarins. Alls konar rétti er hægt að kaupa, frá framandi löndum, ég sjálf er óttaleg bleyða og smakka ekki á neinum nýjungum, vel mér alltaf þrjá smá rétti á kinastöðunum, þá veit ég nákvæmlega hvað ég fæ.

Og nú slæ ég botninn í þetta. En óska öllum góðs dags

 


Bara smá blogg

Mikið er nú langt síðan að ég myndaðist við að blogga.

En ég hef haft mikið að gera undanfarið, og nú er sólin farin að skjótast fram öðru hvoru, sem að verður til þess að ég og fleiri reynum að sitja úti og sleikja langþráða sólargeisla.

Engin aska hefur komið til okkar hérna á Skáni, og afar hljótt er uppi himninum, ég hef ekki orðið vör við flugvél í nokkra daga, sem að er eðlilegt, engar flugvélar hafa flogið frá Kastrup síðustu daga.

Það eru svoddan hörmungar út um allan heim, það liggur við að ég sé farin að trúa því sem að Vottar Jehóva hafa verið að reyna að troða inn í minn þykka haus, að heimsendir sé að nálgast með hraða.

Nú hefur vottum Jehóva ekki tekist að kristna mig, svo að ég fæ trúlega ekki að komast uppi Himnaríki, og klæðast hvítum kirtli og spila á hörpu, og blaka öðru hvoru með vængjunum mínum í takt við hörpuleikinn.

Nei ég lendi sennilega lengst niðri á vonda staðnum, hjá vonda kallinum, kannski verða kallarnir sem að sviku Island þar með mér, vonandi eiga þeir einhverjar millur eftir, því að ég er örugg á því að kallinn á vonda staðnum er með ýmislegt sem að kostar peninga, þar er enginn hörpuleikur.

Miklar uppsagnir eru í vinnunni hjá mér, allstaðar dregst saman, og ferðafólkið hefur svikið okkur fyrstu mánuði ársins.

Margir af mínum góðu vinnufélögum hafa verið kallaðir á eintal með forstjóranum, og koma sumir með tárin í augunum frá því eintali, enda ekki gaman að missa vinnuna í dag, og ákaflega lítið um vinnur í boði.

Ég slæ botninn í þetta, bara bestu kveðjur til bloggvina minna.


Gullin mín

031029026022021021019015013012008017007010001017042048008051008006003Þegar að ég setti inn myndir í gær þá varð það merkilegur ruglingur. Núna ætla ég 020024026028032035prófa017 aftur, og sjá hvort að allt fer á stað aftur hjá mér037039040002004034005009011016


Loksins blogga ég

Jæja ég ætla nú að myndast við smá blogg, mest er það nú útaf því að annars gætu mínir kæru bloggvinir haldið að ég væri nú búin að yfirgefa þennan heim, og farin að spila á hörpu uppí himnaríki, eða það sem að verra væri, að ég sæti fyrir neðan jörðu og spilaði póker við hann sem að býr þar.

En ég lifi við nokkuð góða heilsu, en með mikið annríki í kring um mig, er að berjast við að gera nýja heimasíðu, og um leið að taka myndir af gersemunum m005ínum, ég læt inn nokkrar myndir svona a011ð gamni.

 Þetta voru ekki bestu myndirnar.En allt er á afar góðu verði, ég þori ekki að skrifa meira um verð, af hræðslu við að það sé haldið að ég sé að auglýsa vörurnar mínar.

Læt þetta gott heita, óska öllum góðrar helgi.


Loksin blogga ég................................

Jæja þá er nú kominn tími til þess að blogga, síðast þegar að ég lét vita af mér var eftir skemmtilegu helgina með bara kellingum, en það var fyrir rúmum mánuði.

Ég les alltaf dánartilkynningarnar i Mogganum, og satt að segja, þá brá mér þegar að ég sá dánartilkynningu bloggvinar míns, hans Jakobs, ekki að ég þekkti hann svo vel, en einstaka sinnum skrifuðum við smávegis til hvors annars.

Ég á eftir að sakna hans, og votta aðstandendum hans samúð mína.

Ég sjálf er mikið "bísý" kona þessa dagana, er að berjast við að gera heimasíðu, hef ekki átt við svoleiðis áður, og er hálf klaufaleg við framleiðsluna, og á alveg eins von á því að fólk þurfi að berjast við hláturinn, þegar að það skoðar ósköpin.

Ástæðan fyrir því að ég geri þessa heimasíðu er sú, að ég kaupi skartgripi og ýmislegt annað í gegn um netið.

Ég kaupi lítið í einu, og reyni að leita uppi hluti sem að fást ekki í öllum búðum hérna, og auðvitað reyni ég að halda verðum niðri eftir bestu getu.

Margir verða kannski sjokkeraðir þegar að þeir sjá "leikföng fyrir fullorna", en í dag þykir það ekki merkilegra en að eiga góðan rafmagns tannbursta.

Hér í Malmö snjóar, og á Íslandi er þetta fína veður hef ég heyrt.

Slæ botninn í þetta, óska öllum góðrar nætur. 

 


Fyrsta bloggið á þessu ári

Jæja, loksins læt ég verða að því að setjast niður við bloggið, sem að ég hef vanrækt vikum, eða mánuðum saman.

En nú er komið nýtt ár, og á nýju ári eigum við að byrja nýtt og betra líf, eins og að blogga og hætta að éta súkkulaðið sem að varð afgangs um jólin.

Ég hef þyngst um hátíðarnar, og horfi öfundsjúkum augum á magalausar konur, um leið reyni ég að draga inn minn maga með lélegum árangri.

En ég er alltof löt til þess að fara í alvöru megrun, þrátt fyrir erfiðleikana sem ég hef, þegar að ég er að renna upp rennilásnum á svörtu buxunum mínum.

Ég er ennþá með jólakortin í veskinu mínu, þau sem að ég ætlaði að senda vinum og vandamönnum i byrjun desember, ég ætlaði líka að skrifa smá bréf til allra þeirra sem að búa heima á landinu okkar, en af einhverjum undarlegum ástæðum gleymdust þessi kort, en á þessu nýja ári ætla ég að skrifa jólakort, og skrifa löng bréf í staðinn fyrir stutt bréf, þannig að vinir og ættingjar geta þegar farið að hlakka til og telja dagana til næstu jóla.

Síðustu þrjá daga er ég búin að vera í bæ sem að heitir Ystad, og er mikill kvikmyndatöku bær. Í þessum bæ eru allar Wallander myndir teknar, bæði sænskar sem enskar. Ég var nú ekki að leika í kvikmynd(þeir eru ekki búnir að uppgötva mig) en ég var í góðum félagsskap tveggja kvenna, eitt kvöldið bættist sú þriðja í hópinn, og mikið höfðum við kellingarnar gaman, eins og að við sögðum, svona gaman hefði það ekki verið ef að karlmaður hefði verið með okkur.

Er ekki merkilegt hvað einn maður hefði getað eyðilagt þessa góðu og miklu stemmingu hjá okkur kerlunum.

Við höfðum engar áhyggjur af útlitinu, sem að við hefðum annars haft ef að karlar hefðu verið í námuna við okkur.

Við vorum meira og minna í náttfötunum, nema þegar að við skruppum út í búð, og sminka sig er búið að vera bannvara þessa dagana.

Búið er að ræða um allt milli himins og jarðar, nokkur tár hafa verið felld, en hláturinn hefur ráðið ríkjum þessa dagana, og mikið er nú bæði gaman og gott þegar að það er gaman, og auðvitað er ég örugg á því að hláturinn lengir lífið.

Nú slæ ég botninn í þetta, en munið eftir því að oft er gott að geta séð spaugilegu hliðina á hlutunum, það er svo mikið léttara en að gráta yfir þeim.


Loksins.............................

Ég hef ekki bloggað í lengri tíma, kannski hélduð þið að ég hafi gefið upp öndina eftir að hafa verið sprautuð og misþyrmt í sambandi við svína inflúensuna. En svo var ekki, þessi sprauta sem að ég fékk var afar örvandi, ég þrammaði um hálfann bæinn eftir að ég fékk hana, og vil nú ráðleggja öllum að drífa sig í flensu sprautur.

Jólin eru nú að taka enda, sem betur fer. Ég er með það á hreinu að ég hef bætt á mig aukakílóum á þessum þremur dögum, ég er komin með heljarmikla grautarvömb, ekki skrítið, ég bjó til jólagraut sem að hefði verið passlegur fyrir fimmtán manns, en við vorum bara fimm í kotinu hjá mér, og einn af þeim borðaði ekki graut.

Svo að ég ét graut í öll mál, því að á krepputímum á ekki að henda mat, en mér til mikillar gleði þá endist grauturinn bara á morgun, og þá get ég með góðri samvisku borðað eitthvað annað.

Fyrir jólin kom snjórinn til okkar, og mikið hafarí á vegunum, ég var úti á sjó og varð lítið vör við þetta, en fannst svo jólalegt að sjá alhvíta jörðina svona í fjarlægð, en núna er allur snjór farinn.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að skrifa á jólakortin, geri það bara á næsta ári, kaupi kannski nýjárskort og krota kveðju á þau til ættingja og vina.

En þið sem að lesið bloggið mitt, ég óska ykkur öllum Gleðilegs nýjárs, og þakka ykkur fyrir tryggðina við mig, Sigga hjúkka og hún Jónína mín sem að er svo dugleg að prjóna, ég er ekki búin að gleyma ykkur, hef bara verið löt og önnum kafin svona í lok ársins.

Óska öllum góðrar nætur


Hef ekki bloggað í lengri tíma...........................

Ég er búin að vera afar upptekin kona síðustu vikur, hef ekki haft tíma fyrir blogg né fésabók.

Kannski hélduð þið að, nú væri sú gamla komin á kallafar, og gæti engu öðru sinnt, en ég verð að gera ykkur soldið vonsvikin, enginn maður hefur komist inn á mitt piparkonu heimili nema hann mágur minn og þá í fylgd með systur minni.

En ég er búin að vera á kafi í tölvunni minni, og er að leita að fallegum skartgripum, sem að ég sel á netinu, og er ég farin að selja smávegis, og er nokkuð bjartsýn á framhald af því.

En að leita að réttum söluaðilum er sko ekkert grín, og fer óskaplegur tími í það.

Hér í Malmö er allt á kafi í jóla undirbúningi, eins og í öllum öðrum löndum, mikið fólk í búðunum, og finnst mér margir vera hálf pirraðir á svipinn, enda ekkert grín að leita að réttum jólagjöfum, á réttu verði.

Ég ætla að halda uppá jólin í Malmö, hef ekki verið heima á jólunum í fleiri ár, og eiginlega kominn tími til þess að vera bara heima í rólegheitum.

Auðvitað er ég búin að draga fram alls kyns jólaskraut, og er búin að vera steinhissa á því hvað ég á marga jólasveina, og núna eru jólasveinarnir út um allt hjá mér, ósköp sætir kallagreyin, og ekki eru þeir að trufla mig, en það hefði lifandi jólasveinn gert.

Á morgun fer ég í svínainflúensusprautu, og verð nú að viðurkenna að mér kvíðir fyrir, ég er nefnilega lítið fyrir sprautur, og búið er að fylla mig af alls kyns hryllings frásögnum um hvað geti skeð eftir sprautuna, eiginlega er talið hættulegra að sprauta sig, en að fá flensuna.

Þetta kemur allt í ljós á morgun, og ef að mér tekst að lifa af sprautuna, þá læt ég ykkur vita.

Læt þetta gott heita, óska öllum góðs kvölds.


Bara um Svínapestina og ýmislegt annað

Það skeður lítið hérna í Malmö,annað en þetta venjulega, bófar skjóta hvorn annan, nokkrar kerlingar eru rændar, en þeim er nær að vera að þvælast úti, og að vera með veski á handleggnum til þess ögra ræningjum, í stað þess að vera öruggar heima, á bak við læsta hurð.

Það er farið að kólna, og er eins gott að vera vel klædd og með húfu og trefill. Nú er því spáð að Svínapestin eigi eftir að aukast, og horfi ég tortryggins augum á allt hóstandi og kvefað fólk.

Eiginlega ættu allir að vera með gasgrímu fyrir andlitinu, og forðast öll mannamót.

Eiginlega ættu allir að vera heima í einangrun á fullu kaupi þangað til í mars mánuði, en því er haldið fram að Svínapestin þrífist best í köldu lofti. 

Ég sjókonan er í mikilli hættu, þar sem að ég er innan um svo margt fólk, og verð að viðurkenna að ég er farin að vera meira og minna með hanska, og ef að ég tek hanskana af mér, þá þvæ ég hendurnar með sérstökum sótthreinsandi vökva.

Ég er nefnilega ekki búin að gera upp við mig hvort að ég vilji láta sprauta mig mót flensunni, er meinilla við sprautur, og það eru skiptar skoðanir um ágæti bóluefnisins.

Í kvöld skrepp ég á mætingu hjá gömlum vinnufélögum, en við eigum það sameiginlegt að missa vinnuna fyrir 10 árum síðan, en það var þegar að brúin á milli Danmerkur og Svíþjóðar varð til.

Eins og að við hötuðum þessa bansettu brú þegar að hún varð til, en í dag kæmust við ekki af án hennar, enda er brúnni sjaldan lokað sökum veðurs, en stundum gátum við á ferjunum ekki haldið áætlun, sökum veður ofsa eða íss á sjónum.

Nú læt ég þetta gott heita, óska öllum góðs dags.


Bara um hitt og þetta

Ég er orðin svo löt við bloggið, eiginlega vegna þess að mér finnst ég hafa svo lítið að skrifa um.

Auðvitað vona ég að einhverjir sakni mín, þó svo að ég hafi aldrei komist ofar en að vera ein af fimmtíu mest lesnu bloggurum, svona einstaka sinnum.

Hér í Malmö er farið að kólna, og er okkur hótað snjóblandaðri rigningu í nótt.

Flestir eru komnir í vetrarföt, áberandi eru svartir og gráir jakkar, væri hægt að halda að fólk væri hrætt við aðra liti. Og auðvitað eru flestir komnir með trefla og húfur, oftast í gráum og svörtum lit.

Ég undirrituð skrapp í bæinn í gær, og heimsótti hinar og þessar skransölur, en það er með því skemmtilegasta sem að ég geri, því meira drasl, þess betra.

Auðvitað geri ég góð kaup öðru hvoru, í þessum leiðöngrum mínum, í gær fann ég þennan flotta svarta fjörutíu tals kjól(eins og móðir mín var í þegar að hún var ung). Ég saup hveljur þegar að ég fann hann, og svo þegar að hann passaði svona ljómandi vel(auðvitað mátaði ég hann, mitt í öllu draslinu) þá hélt ég varla vatni. Út fór ég með þennan fagra kjól, og verður hann notaður um næstu helgi, en þá fer ég á smáskemmtun, sem að er kölluð "hrukkur og hundrað pör af skóm".

Ég fer með vinnufélaga mínum, konu á besta aldri. Við konurnar á besta aldri vildum fá Daniel vin minn með okkur, en hann snéri bara upp á sig, og sagðist ekki vera kominn með hrukkur eins og sumir. Ég benti honum á að það væri nú farið að halla undir fæti hjá sumum(hann er jú kominn yfir þrítugt, þessi elska), og svo veit ég fyrir víst að hann á minnst fimmtíu pör af skóm. 

Ég hef verið að dunda mér við að færa til húsgögnin heima hjá mér, og er með stóra hillu sem að ég ætlaði að setja niður í geymslu. Ég fékk fuglaskoðunarmanninn til þess að hjálpa mér, og vorum við komin hálfa leiðina niður í stigann hjá mér, þá komust við hvorki upp né niður. Við festumst með hilluna, Kristján fuglamaður var orðinn eldrauður í framan og hrópaði til mín, "hvernig tókst þér að koma hillunni upp", ég sagði eins og að satt var, að það voru flutningakallar sem að sáu um það.

Þarna stóðum við nokkuð lengi, og komumst hvorki upp né niður, en þá kom Hans á fyrstu hæðinni, hann hafði heyrt í okkur, og kom hann með góð ráð, og hrópaði hvatningarorð til okkar þegar að við vorum að gefast upp, og á endanum komumst við upp með hilluna aftur, og stendur hún úti á gangi, og verð ég víst að sætta mig við að hafa hana þar.

Læt þetta gott heita.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Heidi Helga

Höfundur

Heiður Helgadóttir
Heiður Helgadóttir
Kona á besta aldri, konur eru jú alltaf á besta aldri, ég er frekar stutt, ég þykist alltaf vera svolítið léttari en ég er, og skónúmer mitt er 39.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • bild1
  • 4130 P 1282609870763
  • 4085 P 1282005836254
  • 4071 P 1281936149867
  • bild1
Leita í fréttum mbl.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband