31.3.2009 | 12:30
Gönguferð um bæinn
Í gær fór ég í langa gönguferð um gamla bæinn, ég rölti þetta ein í góða veðrinu, og naut þess að fara um gamlar slóðir.
Allt mitt fólk býr annað hvort í Kópavogi, Breiðholti eða Grafarvogi, og liggur við að mér finnist vegalengdirnar alltof langar, bærinn var ekki svona stór þegar að ég átti heima hérna, enda líkar mér best við gamla bæinn, ég rata þar.
Auðvitað fór ég öðru hvoru inn í búðir, svona til að kanna úrval og vöruverð, flestar búðir sem að ég heiðraði með nærveru minni voru tómar af fólki, kúnnarnir lýstu með fjarveru sinni, það var bara ég og afgreiðslufólkið, og var mér auðvitað veitt heilmikil athygli, í einni búðinni hætti konan að tala í gemsann sinn, hún var greinilega mitt í spennandi umræðuefni, ég held að einhver hafi verið að skilja, auðvitað skilur fólk þó að það sé kreppa og allt í voli. Ég varð svo upp með mér af þessari athygli og skoðaði óvenju mikið hjá henni, án þess að kaupa nokkuð, en sá að hún greip gemsan um leið og að ég fór út, og gat hún vonandi haldið áfram samtali sínu um vinkonuna sem að var að skilja.
Ég er búin að vera með slæman hósta og fór í apótek til þess að kaupa lýsi og hóstasaft, ég varð ekkert smávegis upp með mér þegar að ég fékk að kaupa tvær flöskur af danskri hóstasaft, náttúrlega var ég rannsökuð af apótekaranum áður, og var það samþykkt að ég, kellingin með tíu þumalputta fengi tvær flöskur af þessari hættulegu saft, trúlega leit ég ekki út fyrir að vera kona sem að dytti bara í það um leið og ég væri komin með þá dönsku í hendurnar.
Í gærkvöldi sat ég hjá gamalli vinkonu minni, hún er ein af þessum myndarlegu konum, sí prjónandi fyrir utan allt annað sem að hún afrekar með fimum fingrum sínum, ég hef nú ekki átt mikið við prjónamennskuna síðustu daga, en bara naut þess að horfa á hana.
Ég vil þakka "Núma" fyrir góðar leiðbeiníngar, um leið verðið þið sem að endist til þess að lesa bullið í mér, að afsaka að ég geri ekki margar athugasemdir hjá ykkur.
Óska öllum góðs dags.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2009 | 21:23
Miðvikudagur í Reykjavík
Í gær var ég á bæjarrölti, listakonan systir mín kom og náði í mig, og var keyrt í áttina að miðbænum og var bílnum lagt á Þórsgötunni, þaðan gengum við niður Bankastræti og í áleiðis til Vesturgötunnar.
Mikið kann ég nú alltaf vel við mig í gamla bænum, ég elska litlu bárujárnshúsin, ef að ég verð einhverntíma auðug kona, þá kaupi ég gamalt bárujárnshús og eyði ellinni þar með fallegum ketti.
Eftir að hafa þrætt búðir bæjarins, var farið inn á Hressó og drukkið kaffi og með því, hérna í denn var oft farið á Hressó og borðaðar vöfflur og með þeim var drukkið súkkulaði, á kvöldin var drukkið kók og svo var farið á rúntinn, ekki veit ég hvort að rúnturinn er ennþá til, en finnst það ótrúlegt, við vorum svo barnaleg þá, miðað við æskuna í dag.
Eftir kaffidrykkjuna á Hressó fórum við í handavinnubúð, og þar keypti ég, konan með tíu þumalputtana lopa í peysu, listakonan gapti, en gaf mér góð ráð, ég fór með henni heim, og þar byrjaði ég að prjóna, þrátt fyrir tíu þumla þá gekk þetta sæmilega, ég rakti upp einu sinni, ruglaðist eitthvað þegar að ég byrjaði á stroffinu, fór svo að reikna tvær réttar og tvær vitlausar, vanar prjónakonur telja auðvitað allt öðruvísi, en þetta er mitt prjónamál, og er ég, þegar að ég skrifa þessar línur búin að prjóna heilmikið, er náttúrlega búin að komast að duldum handavinnu hæfileikum mínum, sem að engum óraði fyrir.
Læt þetta gott heita, óska öllum góðs kvölds.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2009 | 11:44
Ég, þumalputta konan
Ég er bísí kona þessa dagana, er á kafi í ættingja og vina heimsóknum. Á sunnudaginn fór ég í bíó með ungum og fallegum piltum, sem að vilja ennþá fara í bíó með ömmu gömlu, án þess að líta flóttalega í kring um sig til að athuga hvort að einhverjir vinir sjái þá með gömlu konunni.
Í gær eyddi ég deginum með listakonunni systur minni, en það er kona sem að saumar bútasaum, telur út í púða og teppi eins og að ekkert sé, og grípur í prjónana um leið og hún horfir á sjónvarpið.
Ég, konan með þumalputta á báðum höndum, horfi hálf öfundsjúkum augum á listaverkin, hugsa með sjálfri mér að ég sé nú hálfgert viðundur, sem að hef ekki fengið neitt af þessum góðu genum, sem að annars flest kvenkyn í ættinni hefur í ríkum mæli.
En ég læt ekkert bera á þessarri öfundsýki minni, og klappa bara hundunum, henni Kollu sem að er tíu ára gömul hund kona, og er orðin svolítið þreytt og stynur mikið, og svo hann Garpur sem að er bara tveggja ára, og er ekki búinn að læraað stynja, en geltir þess meira.
Í dag skín sólin, ég er búin að finna sólglerlaugunin mín, og er á leið í bæjarferð, niður Laugaveginn, og í átt til vesturbæjarins, er hægt að hafa það betra.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2009 | 15:43
Komin heim í heiðardalinn.................................
Og þá er ég komin til fósturlandsins, og líkar vel. Er búin að fara í Góða hirðirinn, fékk 8 ævisögur fyrir nítján hundruð, beinharðar íslenskar krónur, reyfarakaup, ég á eftir að fara þangað aftur.
Í dag fór ég í Kolaportið, gerði þar mikil og góð kaup, rúskinnsjakka fyrir nokkra þúsund kalla, flottur litur,og sölukonan var mikil sölukona, hún vildi endilega selja mér pels líka, en þá lagði ég á flótta.
Í matardeildinni keypti ég fínar flatkökur, hjónabandssælu og djöflatertu, allt var þetta meðlæti á góðu verði, og vorum við ég og mágur minn fljót að fá okkur kaffi og með því þegar að við komum heim aftur.
Veðrið er nokkuð umhleypingasamt, áðan var sól, núna er rigning, og í kvöld á að snjóa. Eins gott að ég mundi eftir að taka með mér hlýja húfu.
En alltaf er jafn gaman að koma "heim", hitta ættingja og vini, borða góða fiskinn okkar, anda að sér heilnæma loftinu, og drekka góða vatnið okkar.
Ég læt þetta gott heita, óska öllum góðrar helgi.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2009 | 07:39
En veðrið er gott
Ég hef ekki haft mikinn tíma til að blogga, og ennþá minni tíma fyrir lestur bloggs. Ástæðan er sú að mikið hefur verið að gerast í vinnunni hjá okkur, salan hjá okkur er ákaflega góð reiknuð í prósentum, en þrátt fyrir það eru uppsagnir, og eru margir af mínum góðu vinnufélögum búnir að skrifa undir uppsögnina sína.
Þetta skapar mikla óró hjá okkur öllum, ég geng með hnút í maganum, sá sem að ég vinn mest með, var látinn skrifa undir í morgun, piltur sem að er bæði duglegur og samviskusamur, einn af þeim bestu hjá okkur.
En veðrið er gott hjá okkur á Skáni, blessuð sólin er farin að líta til okkar öðru hvoru, og eiginlega er orðið svolítið vorlegt, fuglasöngur og svei mér þá ef að grasið er ekki orðið grænna.
Í kvöld fer ég heim til Íslands, flug frá Kastrup, alltaf er gaman að rölta um á Kastrup, en verðin eru ekki til að leika með, og ekki hefur það batnað við lækkun sænsku krónunnar, en einn danskur hundraðkall kostar 150 sænskar krónur.
Ég læt þetta gott heita.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2009 | 17:01
Skrifar einhver ástarbréf ??????????????????
Í morgun las ég frétt um konu sem að vildi fá ástarbréf, hún vildi fá gömul ástarbréf frá öfum okkar og ömmum, frá þeim tímum þegar að fólk skrifaði hvort öðru.
Þetta varð til þess að ég fór að velta fyrir mér hvað það hefur verið spennandi hérna áður fyrr að opna þykk ástarbréf, fullt af fallegum orðum, fögrum framtíðardraumum, sárum söknuði þar sem að viðkomandi var ekki nálægt elskunni sinni.
Um mig fer ljúfur hrollur við tilhugsunina, ég hef ekki verið svo fræg að fá svona bréf, á mínum sokkabandsárum þá var síminn kominn, og í dag er fólk að senda hvort öðru SMS, engin rómantík þar.
Og þessir kallar mínir hafa þegar að andinn hefur komið yfir þá sent mér póstkort frá einhverri sólarströnd (ég er auðvitað ekki með) þeir grobba af hita, sem að þeir svala með einum ísköldum (ekkert annað dugar) og ef að vel lætur, þá er kannski skrifað með pínulitlum bókstöfum, "ég vildi að þú værir hérna".
Nei margt var betra hérna áður fyrr, verst ef að rómantíkin er ekki lengur í tísku, auðvitað getur vel verið að SMS séu jafn skemmtileg og vel skrifuð ástarbréf, en það er ekki hægt að setja ilmvatn á þau, en það gerðu ömmur okkar hérna áður fyrr á bréfin til kærastans.
Smáskvetta af rósavatni var algeng, og stundum var notað rautt blek, og sumir skrifuðu sínum heittelskaða eða heittelskuðu á hverjum deigi, það var nú kannski nokkuð mikið, sérstaklega ef að bréfin voru löng.
En gaman væri að fá að vita hvort að daman sem að auglýsti eftir gömlum ástarbréfum hefur verið það heppin að einhverjir laumuðu á bréfum sem að afi og amma skrifuðu hvort öðru í tilhugalífinu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2009 | 10:43
Þriðjudagsspjall
Ég verð að afsaka bloggleti mína, en hef það mér til afsökunar að ég hef haft svo mikið annað í kring um mig.
Ég er að pakka fyrir ferðina heim til Íslands, um leið pakka ég fyrir vinnuferð, sem að verður á morgun. Þetta að pakka í tvær töskur getur verið svolítið vandamál, áður en að ég vissi af, þá var ég búin að pakka niður ballkjól í vinnutöskuna, er þetta aldurinn.
Hér í Malmö er gott veður, svolítið grátt eins og venjulega, en svoleiðis eru veturnir hérna á Skáni afar gráir, og verð ég sjálf óttalega grá, bæði í útliti og á sálinni á veturna.
Ég rakst á myndina "Mýrina" þegar að ég var að snuðra í DVD myndum á niðursettu verði, þar sem að ég er nú sannur Íslendingur þá keypti ég myndina, er náttúrlega búin að sjá hana, og fannst hún góð. Konulöggan var frábær, og vona ég að hún verði áfram í þessum myndum, því að ég tel líklegt að fleiri myndir verði gerðar eftir sögum Arnaldar.
Ég slæ botninn í þetta, óska öllum góðs þriðjudags.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2009 | 07:10
Um daginn og veginn
Eftir að hafa lesið blogg hjá einum af mínum góðu bloggvinum, þá get ég ekki varist því að velta fyrir mér ástandinu heima á mínu kæra fósturlandi.
Í blogginu skrifar hann að öryrkjar séu bornir út á götuna, ef þeir ráði ekki lengur við húsaleiguna sem að bara hækkar og hækkar, en auðvitað hækka ekki bæturnar þeirra í takt við húsaleiguhækkanirnar.
Það liggur í augum uppi að eitthvað mikið er að ef að það er gengið svo langt að öryrkjum er hent út á götuna, allir eru ekki svo heppnir að geta flutt inn á ættingja sína, bætist þá sá hópur við hóp þeirra sem að þegar eru heimilislausir og hýrast um á götum og skúmaskotum borgarinnar.
Í vikunni rakst ég á grein þar sem að sagt var frá því að eitt fyrirtæki heima á Íslandi hafi endurráðið útlendinga eftir uppsagnir, en gengið framhjá landsmönnum sínum, er þetta vegna þess að útlendingarnir vilja vinna fyrir minna kaupi, eða eru íslendingarnir orðnir svo latir að þeir fá ekki vinnu.
Ég rakst líka á grein þar sem að var sagt að fyrir utan atvinnuleysis stofnanir væru langar biðraðir af útlendingum sem að væru á atvinnuleysisbótum, en er ekki flest af því fólki svokallað farandverkafólk sem að ætti þá að fara heim til sinna heimalanda þegar að lítil vinna er í boði, er ástæða til að litla Ísland sé að sjá fyrir útlendingunum sem að eru jafnvel bara búnir að dvelja á landinu í nokkur ár, og um leið er ekki hægt að sjá til þess að íslendingarnir lifi þokkalegu lífi, sem að eru fæddir og uppaldir á Íslandi, og flestir hafa unnið einhvertíma, en verið það óheppnir að veikjast, slasast og eldast, og neyðast til þess að lifa á mögrum bótum.
Þetta eru smá hugleiðingar hjá mér, eftir lestur blaðsins og bloggs hjá bloggvini.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þá er ég loksins komin heim eftir erfiða vakt, og þegar að ég skrifa erfiða vakt, þá þýðir það byrjun á bruna um borð, stór slys á vélamanni, vörumaður lokaður í lyftu í tæpa tvo tíma(hann fékk ekki taugaáfall, en var orðinn þreyttur á lyftu dvölinni, enda lítið hægt að gera til að stytta sér stundirnar í lyftunum hjá okkur). Og eftir öll þessi ósköp þá flaug ég í loft upp á nýbónuðu gólfi, og lá svo eins og strandsettur hvalur á gólfinu, fékk marga merkilega marbletti eftir þessa flugferð mína, en engin bein voru brotin.
Svo að ég var óskaplega glöð þegar að ég kom heim, og dreif mig strax út í grátt og hrátt veður í langan göngutúr, og dásamaði svona með sjálfri mér, hvað lífið væri nú ágætt öðru hvoru.
Á ferð minni um Malmöborg lenti ég inni á málverkasýningu, þar voru málverk eftir einhverft fólk á aldrinum 18 til 50 ára, ég hefði vel getað hugsað mér að kaupa nokkrar myndir, sumt af þessu listafólki hefði getað sagt Picasso að dingla sér út í næsta vegg.
Í kvöld er ég búin að vera svolítið inni á facebook, verð samt að viðurkenna að það er mikið skemmtilegra að blogga hérna, en það er upplagt að nota facebook til að leta að gömlum vinum og ættingjum, ég er til dæmis búin að fá facebook vinkonu, sem að ég man mest eftir sem hvítvoðung með bleyju og snuð í munninum, en hún leitaði mig uppi sú stutta, löngu hætt með bleyjuna og snuðið, og er orðin fyrirmyndar húsmóðir.
Nú slæ ég botninn í þetta, óska ykkur öllum góðrar nætur, ég er sjálf á leiðinni í rúmið mitt með stóru koddunum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Heidi Helga
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 99591
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar