.Um allt og ekkert

Ég ætla ekki að blogga um kreppuna, eða fjársvik nokkurra stuttbuxnastráka heima á Íslandi, eru ekki allir orðnir leiðir á þeirri tuggu, það er ég.

Ég ætla bara að blogga um húsið mitt og íbúa þess, nú er sólin komin  heldur betur, og Gunnel á fyrstu hæðinni er að fara að setja niður stjúpmæður, en hún sér um garðinn okkar. Við sem að búum hérna njótum góðs af dugnaði hennar, við sitjum bara í garðinum og njótum þess að vera til, á meðan að hún reitir upp illgresi og vökvar blóm og gras. Hún vill ekki fá hjálp, svona ef að ykkur finnst við hin vera miklir letihaugar sem að bara liggjum í leti og bjóðumst ekki til þess að hjálpa henni.

Hans sem að býr líka á fyrstu hæðinni heldur Gunnel selskap, hann hangir yfir henni þar sem að hún liggur á öllum fjórum og slítur upp arfann, mest tala þau um bansettu útlendingana sem að tröllríða öllu og öllum hér í Malmöborg. Hans er sem betur fer búinn að raka af sér gisna Hitler skeggið, hann var að fá sér nýjar mublur í munninn, og var tannlaus nokkuð lengi, og duldi tannleysið með skegginu. En núna er hann kominn með snjóhvítar flottar tennur, hann gæti með leik verið með í auglýsingu fyrir Colgate tannkrem.

Stundum klippir Hans runna og tré hérna, hann fær sér alltaf einn kaldann eftir þau átök, og segist þá vera pungsveittur. Ég fæ mér stundum einn kaldann með honum, þó svo að ég sé ekki pungsveitt.

Fuglamaðurinn sem að býr við hliðina á mér er lítið heima, hann vinnur í einni fínustu og um leið dýrustu mublubúð bæjarins, enda eru eldhússtólarnir hans fimmur og sjöur, en það eru nöfnin á flottum dönskum stólum. En þrátt fyrir flotta stóla þá er fuglamaðurinn lítið heima, hann fer á fætur fyrir allar aldir á frídögunum sínum, og tekur myndir af fuglunum sínum, stundum tekur hann myndir af öðrum dýrum, og selur hann öðru hvoru myndirnar sínar, enda góður ljósmyndari.

Hjúkkan á þriðju hæðinni er ennþá grunuð um græsku, en talið var að hún væri að gefa öðrum eigandanum undir fótinn, og hafi tælt hann til þess að lækka húsaleiguna hjá henni, ég hef lúmskt gaman að þessu, en er um leið viss um að þetta sé vitleysa og til komið af öflugu ímyndunarflugi þeirra á fyrstu hæðinni.

Hugo sem að enginn í húsinu þolir syngur ekki mikið þessa dagana, og er því haldið fram að kellingin sé farin frá honum, og er enginn hissa á því. En Hugo er vinsæll af öðrum eiganda hússins, og drekka þeir vín saman á miðvikudögum, á fínu máli er sagt að þeir prófi hinar og þessar víntegundir, og enda þær prófstundir oftast á því að Hugo styður eigandann niður tröppurnar.

Þetta er nú mest skrifað fyrir þá sem að hafa nennt að lesa pistlana mína, og þekkja orðið til míns fátæklega lífs, og um leið lífsins í húsinu mínu.

 


Ég fékk líka hland fyrir hjartað

Ég fékk líka hland fyrir hjartað þegar að ég horfði á aðfarirnar. Eiginlega get ég vel skilið að ekki sé hægt að flytja inn í mannlaus hús og setjast að þar, en ég get ekki skilið af hverju það á að rífa þessi gömlu hús sem að eru stór hluti í sögu Reykjavíkurborgar.

Nær væri að halda við þessum húsum, og mikið notalegra að hafa þau í miðbænum en einhver steinsteypubákn sem að passa alls ekki inn á milli gömlu húsanna.


mbl.is Fékk hland fyrir hjartað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um allt og ekkert

Jæja, þá er ég komin heim, eftir annasama viku úti á sjó. Þrátt fyrir kreppu og atvinnuleysi er búið að vera mikið að gera hjá okkur, ekki varð ég vör við peninga skort, þegar að kúnnarnir keyptu ótal flöskur af sterku, og nokkur ilmvatnsglös fylgdu með ofaní pokana. En auðvitað var verið að fagna páskunum, enda margir frídagar.

Hér á Skáni hefur verið indælt veður, fólkið sem að var í fríi hefur getað setið í sólbaði, við ræflarnir sem að vorum að vinna vorum í svitabaði, þar sem að flekktarnar voru bilaðar, og við notum sömu þykku fötin allt árið, en við létum það ekki á okkur fá, og tókum brosandi á móti gestunum, með svitastraumana rennandi  niður eftir andlitum okkar.

Ég er strax komin með heimþrá, ég sakna landsins míns, og vina og ættingja þar, ég var svo heltekin af heimþrá þegar að ég komst heim til mín í dag, að ég réðist á harðfiskpakka, og át úr honum standandi í kápunni, og sparaði ekki smjörið, eftir þetta græðislega át, ákvað ég að skella mér í mollið og athuga hvort að einhverjar nýungar hafi orðið þar á þessum fjórum vikum sem að ég hef ekki komist þangað, en verð að viðurkenna að ég sá fátt sem að vakti athygli mína.

Um leið og það fer að birta og sólin kemur fram, þá ber meira á rónum og utangarðsfólki, allir bekkir eru þéttsetnir af þeim, oftast eru þeir glaðir og veifa óspart með plastflöskum með bleikum vökva, sem að þeir súpa á, og eru margir um sömu flöskuna. Ég held að þessi vökvi sé einhverskonar spritt, sem að er notað þegar að grillað er á gamla mátann, með kolum, en greinilega er hægt að komast í mikið stuð af þessum vökva, og virðast þeir una sér vel, og skipta veigunum bróðurlega á milli sín.

Nú ætla ég að leggjast uppí rúmið mitt með stóru koddunum, og bara sofa eins lengi og ég get, engin bansett vekjaraklukka á eftir að ónáða mig í fyrramálið.

Óska öllum góðrar nætur.

 

 

 


Komin heim, og farin að heiman

Þá er ég sjókonan með tíu þumalputta komin heim til Svíþjóðar. Ég fór frá föðurlandinu mínu snemma á mánudagsmorgun, og var komin til núverandi heimalands rétt eftir hádeigi.

Ég er alltaf heltekin af söknuði þegar að ég á að kveðja ættingja og vini, ég vil helst ekki þurfa að kveðja fólk, og fátt er óskemmtilegra en að kveðja á flugvöllum, þá er eins og að allir séu komnir í vandræði með umræðuefni, kannist þið við þetta.

Ferðin var annars ákaflega vel heppnuð, þrátt fyrir breytilegt veður og kreppuna sem að allir töluðu um.

Verst var að sjá draugahverfin, húsin sem að standa hálfbyggð og tóm af íbúum og með til sölu skilti í flest öllum gluggum. Hver á eftir að búa í þessum húsum, verða þau rifin, eða kemur til greina að verð á íbúðum og húsum lækki það mikið að venjulegt fólk geti keypt yfir sig húsaskjól á sómasamlegu verði.

Ég fór drekkhlaðin af góða Íslenska matnum okkar, í farangri mínum leyndust, saltfiskur, bjúgu, flatkökurnar góðu frá Selfossi, harðfiskur og söl.

 Búið var að hræða mig með tollfólkinu á vellinum, og að væri farið með matarsmyglara eins og verstu eiturlyfjasmyglara, þetta er ekki satt, ég hef sjaldan hitt eins skilningsríkt fólk og tollfólkið þar, því að auðvitað var ég kölluð afsíðis og látin opna töskuna mína sem að var víst grunsamleg á mynd.

Ég gerði það með glöðu geði, útskírði fyrir þeim að mig langaði svo oft í góða Íslenska matinn okkar, og var mér klappað á öxlina og sleppt við það, þannig að tollfólkið sem að var að vinna á mánudagsmorgninum fær hæðstu einkunn frá mér.

Og mikið var nú gaman að koma í Bónus og að stúlkan á kassanum var íslensk, það kom svo á mig að ég hafði orð á því við vinkonu mína, sem að var með mér í búðarferðinni, stúlkan á kassanum brosti þegar að ég talaði um þetta.

Mér gengur illa með prjónaskapinn, þumalputtarnir eru ekkert fyrir þessa blessuðu handavinnu, við vini og ættingja segist ég vera að hanna eitthvað spes munstur, allt hefur maður sér til afsökunar.

Ég er að fara að pakka niður fyrir vinnuferð, búið er fríið góða, við tekur alvara lífsins. Ég er ekki búin að fá uppsagnarbréf, en þrátt fyrir það þá hef ég áhyggjur af framtíðinni, þetta kemur í ljós allt saman, en verst er að vinnufélagar mínir sem að um leið eru góðir félagar mínir hverfa frá mér, og auðvitað er framtíðin ekki björt hjá þeim.

Ég læt þetta gott heita, þakka ykkur öllum sem að hafa gert athugasemdir hjá mér, og óska ykkur öllum góðs dags.

 


Miðvikudagur og þoka

Rétt áðan var ég að dáðst að fegurð Esjunnar og Akrafjalls, núna hálftíma seinna sést ekki í þessi fallegu fjöll, því að allt í einu skall á þoka sem að felur fjalla hringinn, og rigningin lemur rúðurnar hérna hjá mér, um leið og ég skrifa þetta.

En þrátt fyrir þessar miklu og öru veðra breitingar, þá er landið okkar eitt af fallegustu löndum í heimi, og sé ég það betur og betur, því að hérna áður fyrr sá ég náttúru fegurðina með öðrum augum, tók því sem sjálfsögðum hlut hvað landið okkar var og er fallegt.

Fólkið hérna er mikið stressaðra en í Svíþjóðinni, en hérna er þotið á milli staða í ræktina á allskonar fundi fyrir utan vinnuna, en sem betur fer hafa allir sem að ég þekki haldið vinnunni þrátt fyrir kreppu og öll þau leiðindi sem að fylgja henni.

Í kvöld er meiningin að skella sér í spa, kellingunni með þumalputtana er boðið með hóp af fallegum konum á öllum öldrum, og hafði ég vit á því að henda sundbol  niður í ferðatöskuna, auðvitað kem ég eins og ný og betri manneskja eftir spa ferðina, hefði ekki haft neitt á móti því að losna við hóstann, en þeir "dönsku" eru nokkuð góðir, og fer ég aftur á stúfana og kaupi flösku sem að ég tek með mér til Svíþjóðar, en þar er ekki hægt að kaupa þessa sterku dropa, trúlega er of mikið áfengi í dropunum, og sænsku þjóðinni ekki treyst til að drekka hóflega af  þessum sterku bauna dropum.

Læt þetta gott heita, óska öllum góðs dags.


« Fyrri síða

Um bloggið

Heidi Helga

Höfundur

Heiður Helgadóttir
Heiður Helgadóttir
Kona á besta aldri, konur eru jú alltaf á besta aldri, ég er frekar stutt, ég þykist alltaf vera svolítið léttari en ég er, og skónúmer mitt er 39.
Apríl 2009
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • bild1
  • 4130 P 1282609870763
  • 4085 P 1282005836254
  • 4071 P 1281936149867
  • bild1
Leita í fréttum mbl.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband