Færsluflokkur: Bækur
10.3.2009 | 17:01
Skrifar einhver ástarbréf ??????????????????
Í morgun las ég frétt um konu sem að vildi fá ástarbréf, hún vildi fá gömul ástarbréf frá öfum okkar og ömmum, frá þeim tímum þegar að fólk skrifaði hvort öðru.
Þetta varð til þess að ég fór að velta fyrir mér hvað það hefur verið spennandi hérna áður fyrr að opna þykk ástarbréf, fullt af fallegum orðum, fögrum framtíðardraumum, sárum söknuði þar sem að viðkomandi var ekki nálægt elskunni sinni.
Um mig fer ljúfur hrollur við tilhugsunina, ég hef ekki verið svo fræg að fá svona bréf, á mínum sokkabandsárum þá var síminn kominn, og í dag er fólk að senda hvort öðru SMS, engin rómantík þar.
Og þessir kallar mínir hafa þegar að andinn hefur komið yfir þá sent mér póstkort frá einhverri sólarströnd (ég er auðvitað ekki með) þeir grobba af hita, sem að þeir svala með einum ísköldum (ekkert annað dugar) og ef að vel lætur, þá er kannski skrifað með pínulitlum bókstöfum, "ég vildi að þú værir hérna".
Nei margt var betra hérna áður fyrr, verst ef að rómantíkin er ekki lengur í tísku, auðvitað getur vel verið að SMS séu jafn skemmtileg og vel skrifuð ástarbréf, en það er ekki hægt að setja ilmvatn á þau, en það gerðu ömmur okkar hérna áður fyrr á bréfin til kærastans.
Smáskvetta af rósavatni var algeng, og stundum var notað rautt blek, og sumir skrifuðu sínum heittelskaða eða heittelskuðu á hverjum deigi, það var nú kannski nokkuð mikið, sérstaklega ef að bréfin voru löng.
En gaman væri að fá að vita hvort að daman sem að auglýsti eftir gömlum ástarbréfum hefur verið það heppin að einhverjir laumuðu á bréfum sem að afi og amma skrifuðu hvort öðru í tilhugalífinu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2009 | 10:43
Þriðjudagsspjall
Ég verð að afsaka bloggleti mína, en hef það mér til afsökunar að ég hef haft svo mikið annað í kring um mig.
Ég er að pakka fyrir ferðina heim til Íslands, um leið pakka ég fyrir vinnuferð, sem að verður á morgun. Þetta að pakka í tvær töskur getur verið svolítið vandamál, áður en að ég vissi af, þá var ég búin að pakka niður ballkjól í vinnutöskuna, er þetta aldurinn.
Hér í Malmö er gott veður, svolítið grátt eins og venjulega, en svoleiðis eru veturnir hérna á Skáni afar gráir, og verð ég sjálf óttalega grá, bæði í útliti og á sálinni á veturna.
Ég rakst á myndina "Mýrina" þegar að ég var að snuðra í DVD myndum á niðursettu verði, þar sem að ég er nú sannur Íslendingur þá keypti ég myndina, er náttúrlega búin að sjá hana, og fannst hún góð. Konulöggan var frábær, og vona ég að hún verði áfram í þessum myndum, því að ég tel líklegt að fleiri myndir verði gerðar eftir sögum Arnaldar.
Ég slæ botninn í þetta, óska öllum góðs þriðjudags.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2009 | 07:10
Um daginn og veginn
Eftir að hafa lesið blogg hjá einum af mínum góðu bloggvinum, þá get ég ekki varist því að velta fyrir mér ástandinu heima á mínu kæra fósturlandi.
Í blogginu skrifar hann að öryrkjar séu bornir út á götuna, ef þeir ráði ekki lengur við húsaleiguna sem að bara hækkar og hækkar, en auðvitað hækka ekki bæturnar þeirra í takt við húsaleiguhækkanirnar.
Það liggur í augum uppi að eitthvað mikið er að ef að það er gengið svo langt að öryrkjum er hent út á götuna, allir eru ekki svo heppnir að geta flutt inn á ættingja sína, bætist þá sá hópur við hóp þeirra sem að þegar eru heimilislausir og hýrast um á götum og skúmaskotum borgarinnar.
Í vikunni rakst ég á grein þar sem að sagt var frá því að eitt fyrirtæki heima á Íslandi hafi endurráðið útlendinga eftir uppsagnir, en gengið framhjá landsmönnum sínum, er þetta vegna þess að útlendingarnir vilja vinna fyrir minna kaupi, eða eru íslendingarnir orðnir svo latir að þeir fá ekki vinnu.
Ég rakst líka á grein þar sem að var sagt að fyrir utan atvinnuleysis stofnanir væru langar biðraðir af útlendingum sem að væru á atvinnuleysisbótum, en er ekki flest af því fólki svokallað farandverkafólk sem að ætti þá að fara heim til sinna heimalanda þegar að lítil vinna er í boði, er ástæða til að litla Ísland sé að sjá fyrir útlendingunum sem að eru jafnvel bara búnir að dvelja á landinu í nokkur ár, og um leið er ekki hægt að sjá til þess að íslendingarnir lifi þokkalegu lífi, sem að eru fæddir og uppaldir á Íslandi, og flestir hafa unnið einhvertíma, en verið það óheppnir að veikjast, slasast og eldast, og neyðast til þess að lifa á mögrum bótum.
Þetta eru smá hugleiðingar hjá mér, eftir lestur blaðsins og bloggs hjá bloggvini.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þá er ég loksins komin heim eftir erfiða vakt, og þegar að ég skrifa erfiða vakt, þá þýðir það byrjun á bruna um borð, stór slys á vélamanni, vörumaður lokaður í lyftu í tæpa tvo tíma(hann fékk ekki taugaáfall, en var orðinn þreyttur á lyftu dvölinni, enda lítið hægt að gera til að stytta sér stundirnar í lyftunum hjá okkur). Og eftir öll þessi ósköp þá flaug ég í loft upp á nýbónuðu gólfi, og lá svo eins og strandsettur hvalur á gólfinu, fékk marga merkilega marbletti eftir þessa flugferð mína, en engin bein voru brotin.
Svo að ég var óskaplega glöð þegar að ég kom heim, og dreif mig strax út í grátt og hrátt veður í langan göngutúr, og dásamaði svona með sjálfri mér, hvað lífið væri nú ágætt öðru hvoru.
Á ferð minni um Malmöborg lenti ég inni á málverkasýningu, þar voru málverk eftir einhverft fólk á aldrinum 18 til 50 ára, ég hefði vel getað hugsað mér að kaupa nokkrar myndir, sumt af þessu listafólki hefði getað sagt Picasso að dingla sér út í næsta vegg.
Í kvöld er ég búin að vera svolítið inni á facebook, verð samt að viðurkenna að það er mikið skemmtilegra að blogga hérna, en það er upplagt að nota facebook til að leta að gömlum vinum og ættingjum, ég er til dæmis búin að fá facebook vinkonu, sem að ég man mest eftir sem hvítvoðung með bleyju og snuð í munninum, en hún leitaði mig uppi sú stutta, löngu hætt með bleyjuna og snuðið, og er orðin fyrirmyndar húsmóðir.
Nú slæ ég botninn í þetta, óska ykkur öllum góðrar nætur, ég er sjálf á leiðinni í rúmið mitt með stóru koddunum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2009 | 10:54
Á leið í vinnuferð
Í dag er óttalega grátt í Malmöborg, farin er sólin sem að gladdi okkur í gær, ég var meira seigja með sólgleraugu, sem að hefur ekki skeð í lengri tíma.
Í litla húsinu sem að ég bý í er allt í ró og spekt, reyndar urðu háværar umræður um væntanlega húsaleiguhækkun hjá okkur íbúum hússins, en ég er með í félagi leigjanda, og er búin að fá tilkynningu um hækkun.
En Hans og Gunnel á fyrstu hæðinni þóttu það félag vera tómur hrossaskítur, og sögðu sig úr því , fyrst Gunnel, svo Hans eftir ákafar umræður um ósvífni mannsins sem að heilsaði uppá okkur, og var að athuga óstand og ástand íbúðanna sem að við leigjum.
Hann var meira að seigja svo frekur að hann drakk kaffi með okkur og át sig pakksaddan af nýbökuðum kanilsnúðum sem að Gunnel hafði sjálf bakað, samt gat hann ekki stoppað af væntanlegar hækkanir sem að voru nokkuð miklar fyrir nokkrum árum.
Þannig að skötuhjúin á fyrstu hæðinni sögðu sig úr félaginu, á þeim forsemdum að þetta félag gerði ekkert annað en að sjúga út peninga af fátækum leigjendum, og um leið gætu þeir verið þekktir fyrir að þiggja bæði kaffi og heimabakað hjá hjá þeim.
Ég er að undirbúa mig fyrir vinnuferð, heil vika er framundan, í vonandi sæmilegu veðri. Óska öllum góðrar viku.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2009 | 20:12
Um hitt og þetta á þriðjudagskvöldi
Allur snjór er horfinn hjá okkur hérna í Malmöborg, í dag skein sólin, og eiginlega fannst mér svolítið vorlegt hjá okkur.
Ég fékk elsku tölvuna mína í dag, eftir langvarandi veikindi er þessi elska orðin frísk aftur, mikið er nú notalegt að sitja hérna og pikka á þessa elsku, en ég held endilega að tölvan mín sé kvenkyns apparat.
Mér létti mikið þegar að ég opnaði fyrir imbakassann í morgunn, og heyrði þær fréttir að hún Victoria prinsessa væri loksins búin að trúlofast honum Daniel sínum, svona okkar á milli sagt, þá var ég farin að óttast að hún myndi enda sitt líf sem piparkelling.
Ég er búin að vera að þvælast inni á "Facebook", verð að viðurkenna að mér finnst lítið varið í það, eða ég er óttalega vitlaus í Pókerpartíum og öllu sem að mér er boðið.
Eiginlega var mest gaman að fylla í spurningar um vini mína, og eins að lesa hvað þeim finnst um mig. En ég komst að raun um að svona almennt heldur enginn að ég sé hinsegin, hafi æft mig á sexi í rúmi foreldra minna, en einhver var svo ósvífinn að halda að ég syngi undir áhrifum áfengis, þetta er mikill misskilningur, svona ef að þið "Facebook" fólk lesið þennan pistil minn, ég er vita laglaus, og hef alltaf vit á því að hrella engan með falskri rödd minni.
Nú slæ ég botninn í þetta, ætla að lesa blogg hjá öðrum bloggurum, en óska öllum góðrar nætur.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2009 | 09:57
Og hér snjóar
Er nýlega vöknuð, mikið var nú notalegt að sofa í rúminu mínu, með stóru koddana mína, mig dreymdi góða drauma, og rétt rumskaði þegar að Alex litli fyrir ofan mig fór að hoppa og syngja um sjöleitið í morgun.
Í gær þegar að ég kom heim skein sólin, ég skrapp heim og losaði mig við vinnutöskuna, fór svo beint út í mollið, átti ekki til kaffikorn, og þar sem að margir kalla sig fíkla á alla mögulega hluti, þá er ég trúlega mikill kaffifíkill, ég er hálf manneskja ef að ég fæ ekki kaffið mitt, ég drekk einstaka sinnum te, en finnst það vera bragðlaus leiðindadrykkur.
Í mollinu var mikið af fólki, mest eldra fólki, sumt af þeim átti erfitt með gang, ég botnaði ekkert í þessum fjölda af eldri borgurum, hélt fyrst að það væri einhverskonar útsala fyrir fólk að er að nálgast áttræðisaldurinn, en fékk svo skýringu á þessu margmenni, ellistyrkurinn var borgaður út í gær.
Ég leit inn í nokkrar búðir, svona til að athuga hvað ég gæti vel hugsað mér að kaupa, ég fann mikið af fallegum fötum, áberandi er guli liturinn, og er sá litur alltaf vinsæll fyrir páskana, fyrir jólin þá er það rauði liturinn.
Eftir að hafa keypt kaffið mitt og ýmislegt annað smátt og gott þá labbaði ég heim, og þá var farið að snjóa, og núna þegar að ég skrifa þetta, þá snjóar. Veturinn er kominn til okkar hér í Malmöborg.
Óska öllum góðs dags.
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.2.2009 | 22:29
Sú saga gengur ljósum logum í vinnunni hjá mér, að ég sé að fara heim til að bjarga ykkur og landinu frá öllu illu
Í vinnunni hjá mér gengur sú saga, að ég undirrituð hafi verið inni á netinu að skoða flugferðir til Íslands, og þegar að ég fann eina á góðu verði, þá hafi ég keypt hana, og hafði orð á því, að nú yrði ég að fara heim og redda málunum, þetta væri ekki hægt, landið væri komið á hausinn og allt í steik, nú skreppi ég heim og frelsaði landið og íbúa þess frá þessum ósköpum.
Auðvitað er sannleikurinn sá, að ég er búin að kaupa farmiða til Íslands á góðu verði, en um leið og ég frelsa landið, og læt ættingja mína stjana við mig, þá er ætlunin að mæta í fermingu hjá tvíburadrengjum sem að eru hálfbræður barnabarnsins míns, þeir eru ekki alvöru barnabörnin mín, en í hjarta mínu og þeirra, þá er ég alvöru amma þeirra.
Þannig að í Mars kem ég og frelsa ykkur frá öllu illu, ef það tekst ekki hjá mér, þá skelli ég mér bara á mótmælafund með þeim sem að eru ennþá að mótmæla, kannski sé ég líka einhvern rassskelltan, en mér fannst ég sjá eitthvað um það í blaðinu.
Ég þakka ykkur öllum sem að sendu mér kveðjur eftir síðasta blogg hjá mér, hef ekki farið inn og svarað, ástæðan er sú að tölvurnar hjá okkur eru svo seinar, að það tekur óratíma að hoppa á milli.
Á miðvikudaginn fer ég heim, Hallelúja.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.2.2009 | 11:56
Bókin um pabba
Er í höfn í Þýskalandi, hér skín sólin, en það er kalt.
Uppsagnir eru byrjaðar hjá okkur, eins og á öðrum vinnustöðum, í þetta skipti var 45 manns sagt upp vinnunni, og er beðið eftir því að fleiri höfuð fjúki.
Þetta skapar auðvitað leiðinda móral, og miklar bollaveltangar yfir framtíðinni, en ég er búin að venja mig á að taka deginum eins og að hann kemur, óþarfi að búa til fyrirfram áhyggjur.
Það er lítið að gera hjá okkur, miðað við fyrri ár, og þar sem að evran er svo dýr, þá er fólk ekki að fara mikið út fyrir utan landsteinana.
Ég tók með mér bókina "Myndin af pabba" sænska útgáfu, og gengur hún manna á milli, og er dáðst að því hvað bókin er vel skrifuð og um leið vel þýdd. Auðvitað er frásögnin ekki falleg, og fjallar um hluti sem að eru því miður alltof algengir.
Læt þetta gott heita.
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þá er kominn miðvikudagur, vinnuvikan byrjar hjá mér í dag, framundan eru sjö dagar úti á sjó, í veltingi eða á sléttum sjó.
Í gærkvöldi var fegrunarkvöld, þið vitið svona kvöld þegar að kellingar reyna að flikka uppá útlitið, með misjöfnum árangri.
Naglaböndum var ýtt upp, neglur voru gerðar jafnar og fínar, auðvitað lakkaðar. Fætur voru raspaðir(næstum því til blóðs) síðan smurðir inn í kremi.
Augabrýr voru litaðar, síðan reyttar, æ,æ, (hvað maður leggur á sig), stundum vildi ég vera kall, þeir þurfa ekki að gera svo mikið fyrir útlitið, flestir hverjir, ekki mín kynslóð, ungu strákunum finnst gaman að líta vel út, og nota gjarnan alls konar krem og lita á sér hárið. Annars er fátt eins sjarmerandi og menn með grátt í vöngum, og þeir sköllóttu eru líka meiriháttar.
Í gær snjóaði hérna í Malmö, þegar að ég var að bardúsa með lappirnar á mér, þá varð mér óvart litið út um gluggann, og niður svifu stærðarinnar snjóflögur, mér datt í hug að þarna væri jólasnjórinn loksins kominn.
Nú slæ ég botninn í þetta, en óska ykkur öllum góðrar viku, ég lít inn til ykkar, þó svo að ég geri ekki vart við mig, verð hálfgerð huldukona næstu daga.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Heidi Helga
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar