17.4.2009 | 16:58
.Um allt og ekkert
Ég ætla ekki að blogga um kreppuna, eða fjársvik nokkurra stuttbuxnastráka heima á Íslandi, eru ekki allir orðnir leiðir á þeirri tuggu, það er ég.
Ég ætla bara að blogga um húsið mitt og íbúa þess, nú er sólin komin heldur betur, og Gunnel á fyrstu hæðinni er að fara að setja niður stjúpmæður, en hún sér um garðinn okkar. Við sem að búum hérna njótum góðs af dugnaði hennar, við sitjum bara í garðinum og njótum þess að vera til, á meðan að hún reitir upp illgresi og vökvar blóm og gras. Hún vill ekki fá hjálp, svona ef að ykkur finnst við hin vera miklir letihaugar sem að bara liggjum í leti og bjóðumst ekki til þess að hjálpa henni.
Hans sem að býr líka á fyrstu hæðinni heldur Gunnel selskap, hann hangir yfir henni þar sem að hún liggur á öllum fjórum og slítur upp arfann, mest tala þau um bansettu útlendingana sem að tröllríða öllu og öllum hér í Malmöborg. Hans er sem betur fer búinn að raka af sér gisna Hitler skeggið, hann var að fá sér nýjar mublur í munninn, og var tannlaus nokkuð lengi, og duldi tannleysið með skegginu. En núna er hann kominn með snjóhvítar flottar tennur, hann gæti með leik verið með í auglýsingu fyrir Colgate tannkrem.
Stundum klippir Hans runna og tré hérna, hann fær sér alltaf einn kaldann eftir þau átök, og segist þá vera pungsveittur. Ég fæ mér stundum einn kaldann með honum, þó svo að ég sé ekki pungsveitt.
Fuglamaðurinn sem að býr við hliðina á mér er lítið heima, hann vinnur í einni fínustu og um leið dýrustu mublubúð bæjarins, enda eru eldhússtólarnir hans fimmur og sjöur, en það eru nöfnin á flottum dönskum stólum. En þrátt fyrir flotta stóla þá er fuglamaðurinn lítið heima, hann fer á fætur fyrir allar aldir á frídögunum sínum, og tekur myndir af fuglunum sínum, stundum tekur hann myndir af öðrum dýrum, og selur hann öðru hvoru myndirnar sínar, enda góður ljósmyndari.
Hjúkkan á þriðju hæðinni er ennþá grunuð um græsku, en talið var að hún væri að gefa öðrum eigandanum undir fótinn, og hafi tælt hann til þess að lækka húsaleiguna hjá henni, ég hef lúmskt gaman að þessu, en er um leið viss um að þetta sé vitleysa og til komið af öflugu ímyndunarflugi þeirra á fyrstu hæðinni.
Hugo sem að enginn í húsinu þolir syngur ekki mikið þessa dagana, og er því haldið fram að kellingin sé farin frá honum, og er enginn hissa á því. En Hugo er vinsæll af öðrum eiganda hússins, og drekka þeir vín saman á miðvikudögum, á fínu máli er sagt að þeir prófi hinar og þessar víntegundir, og enda þær prófstundir oftast á því að Hugo styður eigandann niður tröppurnar.
Þetta er nú mest skrifað fyrir þá sem að hafa nennt að lesa pistlana mína, og þekkja orðið til míns fátæklega lífs, og um leið lífsins í húsinu mínu.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Bækur, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:02 | Facebook
Um bloggið
Heidi Helga
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.