Á leið í vinnuferð

Í dag er óttalega grátt í Malmöborg, farin er sólin sem að gladdi okkur í gær, ég var meira seigja með sólgleraugu, sem að hefur ekki skeð í lengri tíma.

Í litla húsinu sem að ég bý í er allt í ró og spekt, reyndar urðu háværar umræður um væntanlega húsaleiguhækkun hjá okkur íbúum hússins, en ég er með í félagi leigjanda, og er búin að fá tilkynningu um hækkun.

 En Hans og Gunnel á fyrstu hæðinni þóttu það félag vera tómur hrossaskítur, og sögðu sig úr því , fyrst Gunnel, svo Hans eftir ákafar umræður um ósvífni mannsins sem að heilsaði uppá okkur, og var að athuga óstand og ástand íbúðanna sem að við leigjum.

 Hann var meira að seigja svo frekur að hann drakk kaffi með okkur og át sig pakksaddan af nýbökuðum kanilsnúðum sem að Gunnel hafði sjálf bakað, samt gat hann ekki stoppað af væntanlegar hækkanir sem að voru nokkuð miklar fyrir nokkrum árum.

Þannig að skötuhjúin á fyrstu hæðinni sögðu sig úr félaginu, á þeim forsemdum að þetta félag gerði ekkert annað en að sjúga út peninga af fátækum leigjendum, og um leið gætu þeir verið þekktir fyrir að þiggja bæði kaffi og heimabakað hjá hjá þeim.

Ég er að undirbúa mig fyrir vinnuferð, heil vika er framundan, í vonandi sæmilegu veðri. Óska öllum góðrar viku.


Um hitt og þetta á þriðjudagskvöldi

Allur snjór er horfinn hjá okkur hérna í Malmöborg, í dag skein sólin, og eiginlega fannst mér svolítið vorlegt hjá okkur.

Ég fékk elsku tölvuna mína í dag, eftir langvarandi veikindi er þessi elska orðin frísk aftur, mikið er nú notalegt að sitja hérna og pikka á þessa elsku, en ég held endilega að tölvan mín sé kvenkyns apparat.

Mér létti mikið þegar að ég opnaði fyrir imbakassann í morgunn, og heyrði þær fréttir að hún Victoria prinsessa væri loksins búin að trúlofast honum Daniel sínum, svona okkar á milli sagt, þá var ég farin að óttast að hún myndi enda sitt líf sem piparkelling.

Ég er búin að vera að þvælast inni á "Facebook", verð að viðurkenna að mér finnst lítið varið í það, eða ég er óttalega vitlaus í Pókerpartíum og öllu sem að mér er boðið.

Eiginlega var mest gaman að fylla í spurningar um vini mína, og eins að lesa hvað þeim finnst um mig. En ég komst að raun um að svona almennt heldur enginn að ég sé hinsegin, hafi æft mig á sexi í rúmi foreldra minna, en einhver var svo ósvífinn að halda að ég syngi undir áhrifum áfengis, þetta er mikill misskilningur, svona ef að þið "Facebook" fólk lesið þennan pistil minn, ég er vita laglaus, og hef alltaf vit á því að hrella engan með falskri rödd minni.

Nú slæ ég botninn í þetta, ætla að lesa blogg hjá öðrum bloggurum, en óska öllum góðrar nætur.

 

 


Og hér snjóar

Er nýlega vöknuð, mikið var nú notalegt að sofa í rúminu mínu, með stóru koddana mína, mig dreymdi góða drauma, og rétt rumskaði þegar að Alex litli fyrir ofan mig fór að hoppa og syngja um sjöleitið í morgun.

Í gær þegar að ég kom heim skein sólin, ég skrapp heim og losaði mig við vinnutöskuna, fór svo beint út í mollið, átti ekki til kaffikorn, og þar sem að margir kalla sig fíkla á alla mögulega hluti, þá er ég trúlega mikill kaffifíkill, ég er hálf manneskja ef að ég fæ ekki kaffið mitt, ég drekk einstaka sinnum te, en finnst það vera bragðlaus leiðindadrykkur.

Í mollinu var mikið af fólki, mest eldra fólki, sumt af þeim átti erfitt með gang, ég botnaði ekkert í þessum fjölda af eldri borgurum, hélt fyrst að það væri einhverskonar útsala fyrir fólk að er að nálgast áttræðisaldurinn, en fékk svo skýringu á þessu margmenni,  ellistyrkurinn var borgaður út í gær.

Ég leit inn í nokkrar búðir, svona til að athuga hvað ég gæti vel hugsað mér að kaupa, ég fann mikið af fallegum fötum, áberandi er guli liturinn, og er sá litur alltaf vinsæll fyrir páskana, fyrir jólin þá er það rauði liturinn.

Eftir að hafa keypt kaffið mitt og ýmislegt annað smátt og gott þá labbaði ég heim, og þá var farið að snjóa, og núna þegar að ég skrifa þetta, þá snjóar. Veturinn er kominn til okkar hér í Malmöborg.

Óska öllum góðs dags.


Sú saga gengur ljósum logum í vinnunni hjá mér, að ég sé að fara heim til að bjarga ykkur og landinu frá öllu illu

Í vinnunni hjá mér gengur sú saga, að ég undirrituð hafi verið inni á netinu að skoða flugferðir til Íslands, og þegar að ég fann eina á góðu verði, þá hafi ég keypt hana, og hafði orð á því, að nú yrði ég að fara heim og redda málunum, þetta væri ekki hægt, landið væri komið á hausinn og allt í steik, nú skreppi ég heim og frelsaði landið og íbúa þess frá þessum ósköpum.

Auðvitað er sannleikurinn sá, að ég er búin að kaupa farmiða til Íslands á góðu verði, en um leið og ég frelsa landið, og læt ættingja mína stjana við mig, þá er ætlunin að mæta í fermingu hjá tvíburadrengjum sem að eru hálfbræður barnabarnsins míns, þeir eru ekki alvöru barnabörnin mín, en í hjarta mínu og þeirra, þá er ég alvöru amma þeirra.

Þannig að í Mars kem ég og frelsa ykkur frá öllu illu, ef það tekst ekki hjá mér, þá skelli ég mér bara á mótmælafund með þeim sem að eru ennþá að mótmæla, kannski sé ég líka einhvern rassskelltan, en mér fannst ég sjá eitthvað um það í blaðinu.

Ég þakka ykkur öllum sem að sendu mér kveðjur eftir síðasta blogg hjá mér, hef ekki farið inn og svarað, ástæðan er sú að tölvurnar hjá okkur eru svo seinar, að það tekur óratíma að hoppa á milli.

Á miðvikudaginn fer ég heim, Hallelúja.

 


Bókin um pabba

Er í höfn í Þýskalandi, hér skín sólin, en það er kalt.

Uppsagnir eru byrjaðar hjá okkur, eins og á öðrum vinnustöðum, í þetta skipti var 45 manns sagt upp vinnunni, og er beðið eftir því að fleiri höfuð fjúki.

Þetta skapar auðvitað leiðinda móral, og miklar bollaveltangar yfir framtíðinni, en ég er búin að venja mig á að taka deginum eins og að hann kemur, óþarfi að búa til fyrirfram áhyggjur.

Það er lítið að gera hjá okkur, miðað við fyrri ár, og þar sem að evran er svo dýr, þá er fólk ekki að fara mikið út fyrir utan landsteinana.

Ég tók með mér bókina "Myndin af pabba" sænska útgáfu, og gengur hún manna á milli, og er dáðst að því hvað bókin er vel skrifuð og um leið vel þýdd. Auðvitað er frásögnin ekki falleg, og fjallar um hluti sem að eru því miður alltof algengir.

Læt þetta gott heita.


Þá er kominn....................................................................

Þá er kominn miðvikudagur, vinnuvikan byrjar hjá mér í dag, framundan eru sjö dagar úti á sjó, í veltingi eða á sléttum sjó.

Í gærkvöldi var fegrunarkvöld, þið vitið svona kvöld þegar að kellingar reyna að flikka uppá útlitið, með misjöfnum árangri.

Naglaböndum var ýtt upp, neglur voru gerðar jafnar og fínar, auðvitað lakkaðar. Fætur voru raspaðir(næstum því til blóðs) síðan smurðir inn í kremi.

Augabrýr voru litaðar, síðan reyttar, æ,æ, (hvað maður leggur á sig), stundum vildi ég vera kall, þeir þurfa ekki að gera svo mikið fyrir útlitið, flestir hverjir, ekki mín kynslóð, ungu strákunum finnst gaman að líta vel út, og nota gjarnan alls konar krem og lita á sér hárið. Annars er fátt eins sjarmerandi og menn með grátt í vöngum, og þeir sköllóttu eru líka meiriháttar.

Í gær snjóaði hérna í Malmö, þegar að ég var að bardúsa með lappirnar á mér, þá varð mér óvart litið út um gluggann, og niður svifu stærðarinnar snjóflögur, mér datt í hug að þarna væri jólasnjórinn loksins kominn.

Nú slæ ég botninn í þetta, en óska ykkur öllum góðrar viku, ég lít inn til ykkar, þó svo að ég geri ekki vart við mig, verð hálfgerð huldukona næstu daga.


Þetta er eins og spennandi framhaldssaga

Þetta er að verða eins að lesa spennandi framhaldssögu, að opna Moggann á morgnana og sjá hvað hefur skeð síðan í gær, í mótmælastríðinu.

Ekki hefði  verið dónalegt að fá hljómleika svona í morgunsárið, en Davíð hefur trúlega ekki þakkað fyrir músíkina.

En sefur ekki Davíð bara í Seðlabankanum, kemur til greina að hann sé búinn að flytja heimilisfangið sitt þangað og ætli sér að kúra þar til æviloka.


mbl.is Bubbi rokkar Seðlabankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hitt og þetta á miðjum mánudegi

Þá er kominn mánudagur, mörgum finnst mánudagur vera leiðindadagur, mér finnst mánudagar ekkert leiðinlegir, kannski er það vegna þess að vinnuvikan hjá mér byrjar á miðvikudögum, og þar að leiðandi finnst mér miðvikudagar vera leiðindadagar.

Ég er búin að sitja við lestur hinna og þessara á blogginu, margt skemmtilegt fólk lætur í ljósi skoðanir sínar. Auðvitað er mikið skrifað um hann Davíð, ég hef svo lítið vit á þessum málum, og þori alls ekki að skrifa um þessi vandræðamál, verð samt að viðurkenna að ég er alveg hissa á því hvað hann Davíð er góður á tauginni, ég væri fyrir löngu lent inni á hæli stútfull að róandi pillum, ef að ég væri í hans sporum.

Margir góðir pennar eru hérna á blogginu, en það sem að kemur mér á óvart er að það virðist vera einhverskonar skítkast í gangi, þetta hef ég orðið vör við þegar að ég les athugasemdirnar hjá bloggurum. Ég get alls ekki skilið ánægjuna í að vera að hnýta í hvort annað hérna, við erum ákaflega misjöfn eða mislitur hópur, og engin ástæða til annars en að taka tillit til þess, allir hafa rétt til þess að láta í ljósi skoðun sína, svo lengi sem að ekki er farið út í persónulegt skítkast.

Nú er ég þurrausin, læt þetta gott heita. Óska öllum góðs dags.

 


Nýjir Pólverjar

Ef að ég man rétt þá fór mikill fjöldi Íslendinga til Svíþjóðar og annarra landa í fyrir þrjátíu og fimm árum, eða voru það fjörutíu ár, en þá var atvinnuleysið mikið heima á Íslandi.

Sumir eða flestir fóru svo heim aftur, þegar að ástandið varð betra, er ekki sagan að endurtaka sig.

Nema að það er mikið erfiðara að fá vinnu í öðrum löndum í dag, kreppan er komin út um allt.

En mér svona datt í hug hvort að Pólverjarnir væru jafn margir á Íslandi, kemur til greina að þeir séu með vinnu á Íslandi, en að "landinn" þurfi að hrekjast til annarra landa í vinnuleit.


mbl.is Íslendingar „nýju Pólverjarnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaka ársins vekur bernskuminningar

Mig dauðlangaði til að blogga um köku ársins, ég fékk nefnilega vatn í munninn þegar að ég sá mynd af þessari glæsilegu köku.

 Minnti mig svolítið á djöflatertuna sem að móðir mín bakaði í gamla daga, enginn gat bakað eins góða djöflatertu og hún, ekki veit ég hver uppskriftin var, eða hvað varð um hana, en enn þann dag í dag þá man ég eftir góða súkkulaðibragðinu (Síríus suðusúkkulaði), og að tertan bókstaflega bráðnaði í munninum á mér.

Þegar að ég var ung þá tíðkaðist ekki að borða bláber með súkkulaðitertum, en smá rjómaslettu gat maður fengið á hátíðadögum, og féll það oftast í minn verkjahring að þeyta rjómann með handþeytara. Ég sem að þjáðist af leti í mínum ungdóm, þótti óvenju ólöt við rjómaþeytinginn, það þurfti ekki að margspyrja mig hvort að ég nennti að þeyta rjómann, ástæðan var auðvitað sú að mér þótti rjómi óskaplega góður, og um leið og að ég þeytti rjómann þá stakk ég puttanum niður í rjómann og fékk mér vænar rjómasleikjur, hefði einhver komið að mér, þá hefði ég borið því við að ég væri að athuga hvort að rjóminn væri orðinn mátulega þykkur.

Mér þóttu smákökur óskaplega góðar þegar að ég var lítil, en þá voru alltaf til fínar smákökur fyrir gesti, og voru þær geymdar í dunkum í efstu hillunni í eldhúsinu. Ég þarf ekki að taka fram að þessar yndislegu kökur voru bara fyrir gesti, en ef að ég var heppin þá fékk ég að drekka með gestunum þegar að þeir komu, og passaði þá uppá að fá mér  margar kökur þangað til að móðir mín var farin að stoppa mig.

Auðvitað gleymdi ég ekki dunkunum með smákökunum góðu, og fór svo að taka uppá því að ná í stól og koll sem að ég klöngraðist uppá og tókst að ná upp í hilluna þar sem að kökurnar góðu voru geymdar, ég man að ég var afar varkár og tók bara eina af hverri sort, tókst svo að komast slysalaust niður. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum, og var ég orðin hin liðugasta við prílið uppá stóla og palla, þangað til að einn góðan veðurdag þá gat ég ekki opnað kökudúnkinn, þá var búið að líma lokið á hann, og ekki nóg með það, þar var miði með eftirfarandi orðum "mundu að Guð sér þig þegar að þú stelur kökum".

Ég þarf varla að taka fram að ég varð óskaplega hrædd, ég þuldi örugglega fjálglega faðirvorið um leið og ég hreinlega datt niður, og eftir þetta fengu gestasmákökurnar að vera í friði fyrir mér.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Heidi Helga

Höfundur

Heiður Helgadóttir
Heiður Helgadóttir
Kona á besta aldri, konur eru jú alltaf á besta aldri, ég er frekar stutt, ég þykist alltaf vera svolítið léttari en ég er, og skónúmer mitt er 39.
Feb. 2009
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • bild1
  • 4130 P 1282609870763
  • 4085 P 1282005836254
  • 4071 P 1281936149867
  • bild1
Leita í fréttum mbl.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 99591

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband