Færsluflokkur: Bloggar

Stéttamunur ætti ekki að vera til á Íslandi

Þetta með fátækt, er orðið vandamál heima á Íslandi. Og gæti ég um leið trúað því að það séu ennþá fleiri sem að þyrftu að fá aðstoð, en veigra sér við að leita hjálpar.

Í þessu litla landi okkar, er óhuggulegt að það sé svona mikill munur á fólki, öryrkjar, atvinnulausir, og margt af eldra fólkinu, verður tæplega feitt af bótunum sínum, og er ég hrædd um það þeir hópar leggist stundum svangir til hvíldar, fyrir utan þá heimilislausu, sem að verða trúlega fleiri og fleiri, og eiga ekki einu sinni rúmfleti til að sofa í.

Og ekki er létt að berjast áfram í lífinu, lifandi á mögrum bótum, jafnvel með lítil börn á framfæri, og ekki geta veitt börnunum sínum nokkurn skapaðan hlut, þar sem að varla eru til aurar fyrir mat, hvað þá fyrir öðru en því bráðnauðsýnlegasta.

Um leið og þessi fátækt verður algengari heima, þá verður ríka fólkið ennþá meira áberandi, og ekki skrítið að það skapist kergja í garð þeirra, enda ætti þessi stéttamunur ekki að vera til í þrjúhundruð þúsund manna landi.


mbl.is Yfir 300 fjölskyldur fá vikulega matargjafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá rabb um daginn og veginn

Jæja, þá er ég komin heim, kom reyndar í gær, en var alltof þreytt til þess að blogga, sofnaði sætt yfir uppáhaldsþættinum mínum um yfirnáttúrulega hluti.

Í dag er ég búin að vera hjá læknir, en ég þarf að skila læknisvottorði uppá að ég sé heil heilsu annað hvert ár, skila ég ekki þessu vottorði, þá fæ ég ekki að vinna. Ég lenti hjá landa mínum, sem að er greinilega í miklu uppáhaldi hjá samstarfsfólki sínu.

"Oh, hann er svo sætur Íslendingurinn" kurraði hjúkkan, sem að stakk mig í fingurinn til að fá alls kyns blóðprufur. "Á hvaða aldri er hann" spurði ég, um leið og ég reyndi að láta ekki líða yfir mig, ég er nefnilega svo hrædd við að láta stinga mig. "Hann er trúlega rúmlega fimmtugur, en lítur út fyrir að vera yngri" svaraði hún, og fyllti fleiri glös af blóði mínu.

 Mér svona datt í hug, að ég hefði nú átt að fara í blúndubrjóstahaldarann í morgun, svona ef að hann vildi hlusta mig, þessi sæti landi minn.

En hann hafði engan áhuga fyrir því að ég færi að fækka fötum, hann tók hlustunarprófin utan á peysunni minni, og var ég fegin því, þar sem að ég var í, ekkert fyrir augað brjóstahaldara.

Létt í spori fór ég svo frá landa mínum, með vottorð uppá að ekkert getur aftrað því að ég vinni mína vinnu. Ég hitti hjúkkuna á leiðinni út frá honum, "var hann ekki sætur Íslendingurinn" spurði hún, ég kinkaði kolli, því að þetta var hinn þægilegasti maður.

Nóg um þetta. Ekki er gaman að lesa blöðin þessa dagana, þetta lítur hálf illa út allstaðar, og krónan er ekki mikils virði í dag. Vonandi gengur þetta fljótlega yfir, og það sem að er mest áríðandi, að ekki komi alsherjar atvinnuleysi.


Alltaf sama sagan um mánaðarmót

Þá sit ég hérna með hlunkinn í annarri hendinni, og drekk morgunkaffið mitt, fer af stað í vinnuna eftir nákvæmlega tvo klukkutíma.

Er búin að vökva blómin mín, mesta furða hvað þau lifa vel við litla umhugsun og vatnssopa öðru hvoru.

Ég er líka búin að borga reikningana, og eins og venjulega er ég alltaf jafn hissa á því hvað litlir peningar eru eftir. Greinilega þarf ég að krefjast kauphækkunar. En þegar að ég hugsa mig um, þá er ekkert skrítið þó að ég sé alltaf skítblönk, en það er einfaldlega vegna þess að ég er einbúi. Ef að ég væri með kall í eftirdragi, þá væri efnahagur minn mikið betri, þá reikna ég náttúrlega með því að það sé maður í fullri vinnu.

Ég borga húsaleigu, einn þriðji af kaupinu fer í leigu.

Ég borga dýrar tryggingar.

Ég borga síma, rafmagn og afnotagjöld af sjónvarpi.

Ég borga niður gamlar skuldir, sem að hanga á eftir mér síðan að ég var eigin atvinnurekandi.

Ég kaupi mat þegar að ég er heima, borða reyndar sama mat nokkra daga í röð, var nú orðin þreytt á hrossabjúgunum, skánaði þegar að ég át kjötbollur(heimatilbúnar) í fjóra daga.

Þetta er nú bara það sem að ég man eftir í fljótu bragði.

Ég þarf að ná mér í geðgóðan og heimilislegan mann, með sæmilegar tekjur, hann fengi nokkuð frjálsar hendur, þar sem að ég er frekar lítið heima.

Ef að þið vitið um svona mann á lausu, vinsamlegast látið mig vita, vil helst að hann sé kominn hingað fyrir næstu mánaðarmót.

Óska öllum góðrar viku.

 


Um hitt og þetta

Þriðjudagur til þrautar er sagt. Ekki veit ég hvort að það er rétt, mér finnst þriðjudagar vera ágætis dagar, en það er síðasti dagurinn heima hjá mér, eða í vinnunni, miðvikudagar eru annaðhvort að fara í vinnu dagar, eða að koma heim dagar.

Næst þegar að ég kem heim verður annríkt hjá mér, en þá þarf ég að skottast til tannlæknis, og um leið útvega mér læknisvottorð. Við megum ekki vinna úti á sjó nema að vera með vottorð uppá að við séum frísk á líkama og sál, þá eru teknar alls kyns prufur, ég loka augunum þegar að ég er stungin í blóðprufunni, en að pissa í glas, leik ég mér að, geri það öðru hvoru í vinnunni, þegar að ég þarf að sanna sakleysi mitt frá því að vera undir áhrifum áfengis og eiturlyfja.

Á morgun verður hún litla Úrsula spákonan mín ekki í vinnunni, þessi elska er komin á aldur, nú fæ ég enga spennandi spádóma um framtíðina, fæ engar fregnir af stórum peningafúlgum sem að eiga eftir að berast til mín, fæ engar fregnir af "strákum", sem að hugsa hlýtt til mín, hvernig fer ég að.

Síðasti dagurinn hennar Úrsulu okkar var skemmtilegur, um leið var mikið grátið. Hún hafði ekki hugmynd um að undirbúin var mikil tertuveisla fyrir hana, margir þóttust ekki muna að hún væri að hætta hjá okkur(kannski sárnaði henni kuldinn hjá okkur, en við erum svona þetta sjófólk), smurbrauðsdaman okkar var búin að baka flottar tertur, sérstaklega var ein flott, þakin rauðu marsípani, og skreytt með rósum sem að smurbrauðsdaman gerði sjálf með fimum fingrum sínum.

Svo voru allir búnir að læðast út í matsalinn, ég var auðvitað ein af þeim, og ein af vinnufélögum Úrsulu náði í hana, og var hún leidd blindandi inn í matsalinn. Þegar að þangað var komið, þá fékk Úrsula að opna augun, og varð henni svo bilt við að sjá terturnar, gjafirnar(auðvitað vorum við búin að kaupa gjafir)og okkur öll sömum, að hún fór að hágráta, og það var eins og við manninn mælt, við fórum flest öll að tárast, þarna upphófst mikil grát og tertupartý, snöktandi fengum við okkur tertu og þökkuðum Úrsulu okkar fyrir öll árin með henni.

En allir sögðu það sama, mikið var nú þetta gaman, og mikið var þetta vel heppnað hjá okkur.


Berrassaðir kallar spila golf

Merkilegt að það eru myndir af gulum leigubílum við þessa frétt, ekki þar fyrir utan þá er mér alveg sama þó að ég missi af mynd af þessari nöktu konu, ég hefði tæplega séð eitthvað nýtt.

Í gærkvöldi var þáttur um allsbert fólk sem að spilaði golf, og voru það mest kallar, þeir spiluðu gólf eins og að ekkert væri sjálfsagðara, en  að spila golf brókarlausir.

Þetta var nú misfögur sjón, og sumir af köllunum hefðu nú átt að vera í buxum, þetta með stærðina skiptir víst máli.

En þegar að þeir fóru að hlaupa saman, berrassaðir, þá skipti ég um stöð.

Nóg um þetta.

 


mbl.is Nakin á hjólaskautum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksin kemur góð frétt

Mikið er nú þetta góð frétt, gaman að lesa eitthvað skemmtilegt á þessum krepputímum.

Mikið gladdist ég þegar að ég las að hún Anne er steinhætt við bófann Raffaello, enda getur svona saklaus stúlka ekki látið það spyrjast um sig að hún sé í tygjum við peningaþvottakall, ég skil vel að hún sé í svolitlu sjokki, auðvitað vissi hún ekki um þessi myrkraverk Raffaello, og mikið er nú gott að hún getur jafnað sig á þessu öllu saman í faðmi fjölskyldunnar, og sleikt sár þau sem að hún fékk, þegar að hún fékk vitneskju um vinnu kærastans, og við það að láta af hendi skartgripi og gjafir, sem að hann hafði keypt fyrir þvegna peninga.


mbl.is Flutt heim til mömmu og pabba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bauhaus

Svolítið skondið finnst mér, að um leið og talað er um kreppu, og að það sé verið að stoppa nýbyggi, þá er verið að opna stærðarinnar byggingarvöruhús heima.

 Er þá kreppan bara í nösunum á fólki. Um leið er afskaplega jákvætt að svona margir fá vinnu þarna, ég fer nú stundum í Bauhaus hérna í Malmö, og þar sé ég lítið af starfsfólki, nema að tveir sitja við kassana, ef að ég þarf aðstoð, þá þarf ég oftast að leita vel og lengi, eftir viljugri manneskju sem að getur hjálpað mér. Er ansi hrædd um að það verði auðveldara að fá hjálp í Bauhaus heima á Íslandi.


mbl.is 1.250 sækja um 150 störf hjá Bauhaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gettóið í Malmö

Þetta hverfi sem að hann á við er þekkt sem hverfi sem að er yfirfullt af innflytjendum, og hefur slæmt orð á sér hér í Malmö. Og er sagt að í skólunum séu nánast bara innflytjendur, og hefur það orðið til að sænskan hjá þeim verður ekki hrein, talað er um "Rósargarðsmál", síðan má bæta við að þarna býr líka margt sómafólk, sem að líkar vel þarna og vilja hvergi annars staðar búa.

Það má bæta við að allir elska Zaltan og eru stoltir af þessum fyrrverandi Rósargarðsbúa, en hann er fluttur langt frá gettóinu í dag, hann keypti eitt dýrasta hús Malmöborgar fyrir einhverjum árum eða ári síðan, og er það hús langt frá gettóinu.


mbl.is Zlatan lærði í gettóinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara mánudagsbull

Góðan og blessaðan daginn, þá er kominn mánudagurinn góði, ný vinnuvika byrjar hjá mörgum, þeim sem að eru með 9 til 5 vinnu, mikið var nú myndin "nine to five" góð, ég hef nú alltaf haldið uppá hana Dolly litlu Parton, röddin er meiriháttar, hef alltaf dáðst að stærðinni á barmi hennar, en er henni ekki illt í bakinu, er ekki kominn tími til að hún minnki plastið í brjóstunum.

Ég er búin að kíkja yfir helstu fréttir, mér kom á óvart að það virðist vera sem að mörgum finnist sjálfsagt að útlendingar séu með minna kaup en heimafólk, og ég sem hélt að Íslendingar væru svo sanngjörn þjóð. Þeir eru þá ekkert betri en Svíarnir, en hér vinna Pólverjar mikið svart, og þá fyrir mikið minna kaupi en Svíarnir, en enginn kippir sér upp við það.

Ég er að fara til Póllands um miðjan október, þetta verður svokölluð námsferð hjá okkur í vinnunni, en komin er stór og ný ferja sem að fer á milli Svíþjóðar og Póllands, og ætlum við að fara og skoða ferjuna, og auðvitað athuga hvort að við getum lært eitthvað nýtt í sambandi við sölu ilmvatna og sterkra drykkja.

 Og auðvitað er meiningin að láta báðar vaktir hittast svona einu sinni, annars hittumst við á landganginum, köstum kveðju á hvort annað, og mikill rígur er á milli vakta, einkabílstjórinn minn, hún Agneta hvíslaði að mér seinast þegar að við vorum að fara í land, og hittum hina vaktina, "ekki gæti ég unnið með þeim", mér svona datt í hug hvort að hin vaktin seigi það sama um okkur.

Í fyrradag datt mér í hug að lesa nokkur gömul blogg frá mér, og mér ofbauð svo vitleysan sem að ég hafði skrifað, að ég eyddi öllu, ég eyddi líka því sem að ekki átti að eyða, og skipti um mynd af mér, ég varð vör við að fólki fannst sú gamla vera svolítið lauslætisleg, ég er ekki tilbúin til að setja ekta mynd af mér, allir í fjölskyldunni vita ekki um þessar skriftir mínar, og vil þá hlífa þeim frá því að vera strítt með þessu tómstundagamni mínu.

Óska öllum góðs dags.

 


Allsber við störf sín

Mér svona dettur í hug hvort að hún hafi ekki fengið óvenjumikið þjórfé.

 


mbl.is Handtekin sökum nektar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Heidi Helga

Höfundur

Heiður Helgadóttir
Heiður Helgadóttir
Kona á besta aldri, konur eru jú alltaf á besta aldri, ég er frekar stutt, ég þykist alltaf vera svolítið léttari en ég er, og skónúmer mitt er 39.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • bild1
  • 4130 P 1282609870763
  • 4085 P 1282005836254
  • 4071 P 1281936149867
  • bild1
Leita í fréttum mbl.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband