5.2.2009 | 21:51
Kaka ársins vekur bernskuminningar
Mig dauðlangaði til að blogga um köku ársins, ég fékk nefnilega vatn í munninn þegar að ég sá mynd af þessari glæsilegu köku.
Minnti mig svolítið á djöflatertuna sem að móðir mín bakaði í gamla daga, enginn gat bakað eins góða djöflatertu og hún, ekki veit ég hver uppskriftin var, eða hvað varð um hana, en enn þann dag í dag þá man ég eftir góða súkkulaðibragðinu (Síríus suðusúkkulaði), og að tertan bókstaflega bráðnaði í munninum á mér.
Þegar að ég var ung þá tíðkaðist ekki að borða bláber með súkkulaðitertum, en smá rjómaslettu gat maður fengið á hátíðadögum, og féll það oftast í minn verkjahring að þeyta rjómann með handþeytara. Ég sem að þjáðist af leti í mínum ungdóm, þótti óvenju ólöt við rjómaþeytinginn, það þurfti ekki að margspyrja mig hvort að ég nennti að þeyta rjómann, ástæðan var auðvitað sú að mér þótti rjómi óskaplega góður, og um leið og að ég þeytti rjómann þá stakk ég puttanum niður í rjómann og fékk mér vænar rjómasleikjur, hefði einhver komið að mér, þá hefði ég borið því við að ég væri að athuga hvort að rjóminn væri orðinn mátulega þykkur.
Mér þóttu smákökur óskaplega góðar þegar að ég var lítil, en þá voru alltaf til fínar smákökur fyrir gesti, og voru þær geymdar í dunkum í efstu hillunni í eldhúsinu. Ég þarf ekki að taka fram að þessar yndislegu kökur voru bara fyrir gesti, en ef að ég var heppin þá fékk ég að drekka með gestunum þegar að þeir komu, og passaði þá uppá að fá mér margar kökur þangað til að móðir mín var farin að stoppa mig.
Auðvitað gleymdi ég ekki dunkunum með smákökunum góðu, og fór svo að taka uppá því að ná í stól og koll sem að ég klöngraðist uppá og tókst að ná upp í hilluna þar sem að kökurnar góðu voru geymdar, ég man að ég var afar varkár og tók bara eina af hverri sort, tókst svo að komast slysalaust niður. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum, og var ég orðin hin liðugasta við prílið uppá stóla og palla, þangað til að einn góðan veðurdag þá gat ég ekki opnað kökudúnkinn, þá var búið að líma lokið á hann, og ekki nóg með það, þar var miði með eftirfarandi orðum "mundu að Guð sér þig þegar að þú stelur kökum".
Ég þarf varla að taka fram að ég varð óskaplega hrædd, ég þuldi örugglega fjálglega faðirvorið um leið og ég hreinlega datt niður, og eftir þetta fengu gestasmákökurnar að vera í friði fyrir mér.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
![]() |
Bloggari rekinn fyrir skrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bloggfærslur 5. febrúar 2009
Um bloggið
Heidi Helga
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 99591
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar