Um allt og ekkert

Í kvöld hugsaði ég mér gott til glóðarinnar, og ætlaði að lesa blogg hjá bloggvinum mínum, sem að ég hef ekki haft tíma til síðustu vikur(já lífið snýst um mikið annað en blogg).

En mér til mikillar undrunar, eru þrjár af bloggvinkonum mínum búnar að læsa blogginu sínu.

Ein bloggvinkona er hætt að blogga hérna á Mogganum, einn aðalgæinn er mest á fjésbókinni, og svona mætti lengi telja.

Kemur til greina að Moggabloggið sé ekki inni lengur, er ég hallærisleg ef að ég held áfram að blogga, á ég að snúa mér að fjésbókinni, sem að mér finnst vera hálf leiðinleg, en er óskaplega vinsæl. Margir eru með fleiri hundruð manns sem VINI, ég ræfillinn er bara með fimmtíu vini, skrifa það með litlum stöfum, ég skammast mín fyrir að vera svona óvinsæl.

En svo er ég svoddan kjáni að mér finnst þessir fjésbókar leikir frekar leiðinlegir. Mér er svo sama hverjir halda að ég sé þrælvön strippa, og borgi fólk út úr steininum, ég hef aldrei dansað nektardans, en náð í fólk úr steininum, hef ég gert(borgaði ekki neitt).

Hér í Malmö er fínt veður, ég hef ekki getað notið þess sökum mikilla anna á heimili mínu. Miskunnarlaust hef ég þurrkað allt ryk sem að hafði safnast fyrir á ótrúlegustu stöðum. Alla glugga hef ég þvegið, ryksugan hefur verið í gangi meira og minna í allan dag, ég er eiginlega örmagna eftir þessi ósköp, en nú get ég ekki lengur skrifað nafnið mitt í svörtu bókahillurnar.

Og svona í lokin vil ég minna alla á, að lesa bloggið hjá" Alkanum", en það sem að hann skrifar um, á erindi til allra, sem betur fer er hann ekki búinn að læsa blogginu sínu.


Langt síðan að ég bloggaði

Það er svo langt síðan að ég bloggaði, að ég veit varla á hverju ég á að byrja. En ástæðan fyrir bloggleti minni er einfaldlega sú, að ég er búin að vera á kafi í námskeiðum og alls kyns fundum í sambandi við vinnuna, og er gjörsamlega galtóm þegar að ég kem heim.

En ég horfði á söngvakeppnina í gær, sá flesta, og rétt lag vann, og auðvitað var Island meiri háttar, unga stúlkan í öskubuskukjólnum var frábær, og kom mér mest á óvart að hún fékk ekki fleiri stig.

Sænska daman er auðvitað mjög góð, en átti eiginlega ekki heima þarna, enda átti ég aldrei von á að hún kæmist langt.

Í dag skín sólin hjá okkur hérna í Malmöborg, í gær var grátt veður og rigning, svona veður sem að afsakaði að ég undirrituð lá mest fyrir í sófanum, og horfði á, bæði matarprógrömm og spennumyndir, verð samt að viðurkenna að ég sofnaði í miðjum myndum, ég veit ekki hver það var sem að myrti gömlu konuna í einni myndinni, en get best trúað því að það hafi verið tengdasonurinn.

Ég læt þetta gott heita, en óska öllum góðs dags


Komin heim

Jæja þá er víst búið að kjósa heima á Íslandi. Vonandi kusu nú allir rétt, og vonandi verður nú staðið við öll kosningaloforðin. Ég hef ekki getað fylgst með þessum ósköpum, og veit ekki hverjir unnu, en er fegnust því að hafa sloppið við að þurfa að kjósa, og um leið að hlusta á öll loforðin sem að eru gefin fyrir kosningar, en sem að gleymast oftast jafn fljótt, eftir að þeir sem að lofa mestu, hafa komist til valda.

Hér á Skáni er sumarveður, yfir tuttugu stiga hiti, léttklætt fólk úti á götum borgarinnar, sumir éta ís, aðrir drekka gos, og enn fleiri sitja með ískaldan bjór. Þetta veður á að haldast fram yfir helgi, en þá er spáð rigningu. Þannig að ég ætla mér að liggja í leti og sleikja sólina næstu daga, ég læt gluggaþvott eiga sig næstu daga.

Óska öllum góðrar nætur.


Miðvikudagur til mikillar mæðu, eða ?

Þá er komið að síðasta blogginu, nei, nei, ég er ekki hætt, bara komin í viku pásu. Þarf víst að fara að vinna fyrir kaupinu mínu, og vera þakklát fyrir að vera með vinnu.

Og enn skín sólin á okkur hérna á Skáni, eiginlega hefði ég viljað að það væri rigning, það er mikið skemmtilegra að fara í vinnuna í rigningu.

Í gær þvoði ég eldhúsgluggann hjá mér, eftir mikið puð við gluggaþvott þá skín sá gluggi í kapp við sólina, það eina neikvæða við þennan dugnað minn, er sá, að ég verð greinilega að þvo og pússa hina gluggana í næsta fríi, þar sem að ég sé ekki almennilega til veðurs nema í eldhúsinu.

Skattaskýrslan bíður mín í næsta fríi, af einhverjum undarlegum ástæðum, þá leiðist mér að gera skattaskýrslu, eiginlega er mér illa við orðið skattur, mér sárnar að borga marga þúsundkalla í hverjum mánuði í skatta, ég hefði getað gert svo mikið annað fyrir peningana. Ég hefði lifað góðu og áhyggjulausu lífi á skattapeningunum mínum.

Og ég er þreytt á að sjá allt liðið á götum bæjarins sem að aldrei hafa unnið og borgað skatta, en lifa um leið sæmilegu lífi á mínum sköttum. Sumt af þessu fólki hefur aldrei ætlað sér að vinna í sínu nýja landi, það fer bara til félagsmálastofnunarinnar í hverjum mánuði og nær í aurana sem að þeim er úthlutað, en þyrfti ég að leita þangað, þá væri mér sparkað út á mínútunni, þar sem að ég asninn hef alltaf unnið.

Nú er ég komin út fyrir það sem að ég ætlaði mér, þetta er allt saman skattaskýrslunni að kenna.

Óska öllum góðs dags, nú fer einkabílstjórinn minn að koma.


Frábær kall, hann Helgi í Góu

Ég vilda að fleiri en Helgi í Góu hefðu þennan brennandi áhuga fyrir því, að búa vel að gamla fólkinu, og er þetta ekki frábær hugmynd með lífeyrissjóðina.

 

 

 


mbl.is Hugsjónamaðurinn Helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyr fyrir Torfusamtökunum

Mikið er ég nú sammála Torfusamtökunum. Aðfarirnar hjá lögreglunni á Vatnsstíg voru ömurlegar. Og auðvitað eigum við íslendingar að varðveita þessi gömlu hús, í stað þess að láta þau grotna niður, í þeim tilgangi að síðan rífa þau, og byggja steinkumbalda sem að  hvergi eiga heima nema í úthverfum bæjarins.

Mikið fannst mér gaman að ganga um miðbæinn gamla og sjá gömlu húsin okkar, sumum var vel við haldið, öðrum minna við haldið, og ættu eigendur þessara húsa að fá styrki til að geta staðið undir viðhaldi og málningu á gömlu húsunum okkar.

 Þessi hús er partur af sögu Reykjavíkurborgar, við höfum ekki alltaf búið í átta hæða blokkum, með lyftu, eða fjögur hundruð fermetra steinhúsum.

 


mbl.is Torfusamtökin gagnrýna hörku lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hitt og þetta, kóngulær, ferðafólk og vændi

Og enn skín sólin á okkur hér í Malmöborg, en í dag get ég ekki legið í leti, í dag er þvottadagur.

Ég þarf að draslast með skítugan þvott niður í kjallara, og stugga við kóngulónum, sem að eru með lögheimili í þvottahúsinu hjá okkur, sagt er að við, hérna í gamla húsinu okkar séum með afar stórar og pattaralegar kóngulær, miðað við aðra kjallara. Það er náttúrlega vegna þess, að við drepum ekki okkar kóngulær, en hér er talið mikið ógæfuverk að drepa kónguló, og verður það til þess að ég þykist ekki sjá þessar feitu kóngulær, sem að skjótast upp um alla veggi, þegar að ég heimsæki þvottahúsið okkar.

Þegar að ég gluggaði í fréttir á forsíðu Moggans, þá sá ég að ferðamenn koma mikið til Íslands þessa dagana, er ekki nema gott um það að seigja, ekki veitir af að fá gjaldeyrir inn í landið. Annars fannst mér frekar dýrt heima, en auðvitað var ég með lélegan gjaldeyrir, sænskar krónur.

Um leið rak ég augun í fréttirnar um þá, sem að kaupa vændi, verða fundnir til saka fyrir það athæfi sitt, að kaupa sér ástarstund. Vitnað var í sænsk lög, en eftir því sem að ég best veit, þá hefur vændi ekki minnkað, það fer öðru vísi fram, dömurnar eru meira í eigin íbúðum, götuvændið hefur kannski minnkað eitthvað, en aldrei verður hægt að koma í veg fyrir vændi. Og því miður er sannleikurinn sá, að margir menn eiga í erfiðleikum með að ná sambandi við hitt kynið, og leita þá til falra kvenna, einfaldlega vegna þess að allir eru fæddir með þessa blessuðu náttúru, fallegir sem ljótir.

Ég er ekki að mæla vændi bót, og alls ekki ef að eiturlyf og börn eru innblönduð, annars lít ég á vændi sem illa nauðsýn fyrir þá sem að ekki eiga kost á öðru.

Óska öllum góðs dags. 


Um daginn og veginn

Og enn skín sólin á okkur hérna í Malmöborg, mikið verður nú skapið léttara þegar að veðrið er gott, og engin vandamál eru svo slæm að ekki sé hægt að leysa þau.

En væri ég búsett á Íslandinu mínu, þá væri ég í miklum vandræðum, og nú á ég við væntanlegar kosningar. Ég er fegin að losna við þá ábyrgð að þurfa að velja út einn flokk, og kjósa þann flokk, og komast svo að því eftir kosningar, að öll loforðin og faguryrðin voru eintómt bull.

 En ég vona að sá flokkurinn komist að, sem að getur haft áhrif á dýrtíð og atvinnuleysi.

Mikið er smyglað af eiturlyfjum, miðað við það mikla magn sem að er tekið flestalla daga vikunnar, væri hægt að halda, að meira en helmingur þjóðarinnar sé farin að styrkja sig á dópi, eða farnir að reykja gras, kannski veitir fólki ekki af því, í því ástandi og öryggisleysi sem að ríkir í landinu, en verst er nú að vita til þess að höfuðpaurarnir nást sjaldan, þeir geta setið á sínum breiðu afturendum, og lifað flott á kostnað annarra, þar er ekkert atvinnuleysi.

Nú er sólin farin að lokka mig út til sín, ég held að ég skelli mér út í sólbað með bókina sem að ég er að lesa, en það er frábær bók eftir frábæran rithöfund Margaret Yorke.

 


Súpan................

Ekki var áhuginn mikill fyrir súpunni, fyrst að það töldust vera hundrað manns sem að mættu í veisluna. Þá er betur mætt í margar fermingarveislur, samt þurfa gestir í fermingarveislum að borga með sér, er ekki talið að inngangurinn í fermingarveislu sé að meðaltali fimm þúsund krónur.

 

 


mbl.is Kosningakjötsúpa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dónamyndir og dónablöð

Svolítið merkileg aðferð sem að konan notaði til að hefna sín á nágrannakonunni.

Ég hef aldrei fengið dónablöð send í pósti, en aftur á móti fengið ótal tilboð um að gerast áskrifandi af dónalegum myndum, send til mín í tölvupósti, nýjar myndir á hverjum degi er lofað, ekki veit ég hvað það kostar, þar sem að ég hef takmarkaðan áhuga. Um leið á ég erfitt með að skilja hvernig dónamynda framleiðendur hafa fengið augastað á mér, einhleypri kellingunni í Svíþjóð, það skildi þó ekki vera að nágrannar mínir standi á bak við þetta, vilja þeir losna við mig úr húsinu, eða tek ég of mikið pláss í garðinum okkar, eða halda þau að þetta sé mitt aðal áhugamál að skoða dónamyndir, kannski er góð hugsun á bak við þetta.


mbl.is Í fangelsi vegna klámtímarita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Heidi Helga

Höfundur

Heiður Helgadóttir
Heiður Helgadóttir
Kona á besta aldri, konur eru jú alltaf á besta aldri, ég er frekar stutt, ég þykist alltaf vera svolítið léttari en ég er, og skónúmer mitt er 39.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • bild1
  • 4130 P 1282609870763
  • 4085 P 1282005836254
  • 4071 P 1281936149867
  • bild1
Leita í fréttum mbl.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband