Færsluflokkur: Bloggar

Laugardagur í Torrevieja

Og þá er kominn laugardagur, er ekki hægt að seigja að það sé þriðji í jólum.

Í dag er kalt og það er rok, ég hef ekki séð sjóinn jafn úfinn og í dag, samt eru einhverjar hetjur úti og busla í ísköldum sjónum, en ég og rauði sundbolurinn verðum bara heima og höfum það gott.

Auðvitað er ég búin að fara í göngutúrinn minn, gleymdi að fara í almennilega peysu, þannig að mér var hálfkalt, en fann fljótlega gott ráð við því, ég skaust bara inn í flest allar búðir sem að ég fann á leiðum mínum, í sumum búðum var virkilega hlýtt, sem að varð til þess að ég hékk óvenju lengi inni og skoðaði allt sem að hægt var að skoða.

Konur eru greinilega að kaupa sér síða kjóla fyrir gamlárskvöld, og nóg er nú úrvalið af fínum samkvæmiskjólum, sá eina þybbna konu með risastórt húðflúr á handleggnum vera að máta kjól, mér sýndist nú að kjóllinn hefði mátt vera aðeins stærri, en hún virtist vera hinn ánægðasta og búðarkonan klappaði saman höndunum af fögnuði yfir því að loksins væri konan búin að finna rétta kjólinn, því að fyrir aftan konuna voru hrúgur af kjólum sem að hún var búin að máta.

Ég sest inn á veitingastað, þar fyrir er eldri maður, hann situr einn við borð og ræður krossgátu, öðru hvoru drekkur hann úr vínglasinu sínu, hann lítur aldrei upp, ekki einu sinni þegar að háværir Englendingar koma inn.

Ég fer inn í svokallaða Kínabúð, sem að var svo yfirfull af alls konar skrani, að það hefði tekið mig fleiri tíma að fara yfir það allt saman, en það var kalt þar inni, svo að ég forða mér út, og hugsa mér gott til glóðarinnar að komast inn á hlýrri stað.

Hér er kalt á kvöldin og nóttunni, ofnar eru lúxus, enda kostar alltof mikið að nota þá dags daglega, þannig að hér klæði ég mig vel fyrir svefninn, náttkjóll, síðar buxur og svo sloppurinn minn ljóti en hlýi sem að ég keypti fyrir nokkrum árum, og hef haft hangandi í skáp í gestaherberginu hjá syni mínum.

Dvöl mín hérna er meiri háttar, tengdadóttirin vill allt fyrir mig gera, sonurinn er ennþá fastur á skipi sínu fyrir utan Nígeríu, og eiginlega finnst mér best að vita af honum fyrir utan Nígeríu, held nefnilega að sjálfa Nígería sé ekkert fyrir venjulegt fólk, kannski eru þetta fordómar hjá mér, en er búin að heyra hálfgerðar ævintýrasögur um Nígeríu og íbúa þess lands.

Mér er minnistætt bréf sem að ég fékk þegar að ég var með eigin búð, þetta bréf var frá prinsi í Nígeríu, og vildi hann að ég myndi hjálpa honum fjárhagslega, ekki veit ég hvernig þessi gaur (prinsinn) fann heimilisfang mitt (bréfið var reyndar stílað á búðina), en hugsa að fjöldi búða í Malmö hafi fengið sama bréf.

Læt þetta gott heita frá Torrevieja.


ER VERIÐ AÐ HREKJA NAFNLAUSA MOGGABLOGGARA Í BURTU FRÁ BLOGGINU

Hver er ástæðan fyrir því að Morgunblaðið krefst þess að fólk skrifi undir fullu nafni, annars sjáist ekki bloggið þeirra hjá öðrum en bloggvinum þeirra. Hef ég misskilið eitthvað, hef ég misst af einhverju í bloggheiminum.

Margir af betri bloggurum Morgunblaðsins skrifa ekki undir fullu nafni, ástæður geta verið margar, fólki finnst gaman að skrifa um menn og málefni, eða jafnvel skrifa um viðkvæm mál í þeirra eigin lífi, en treysta sér ekki til að gefa upp fullt nafn.

Ég blogga að gamni mínu, en líka til þess að reyna að halda við málinu mínu, sem að ég er farin að ryðga í eftir öll þau ár sem að ég hef búið erlendis.

Ef að Morgunblaðið stendur við þessa ákvörðun sína, þá eiga þeir á hættu að missa marga góða bloggara, sem að ekki vilja skrifa undir fullu nafni.

Gaman væri að fá athugasemdir um þetta.


Og enn er ég á Spáni

Ég vil byrja á að þakka fyrir allar fallegu jólakveðjurnar sem að ég hef fengið frá ykkur mínir kæru bloggvinir, því miður hef ég ekki verið jafn dugleg að fara inn hjá ykkur og þakka fyrir mig, en þið vitið að þegar að kellingar eru niður á Spáni, þá glepur sólin okkur.

Ég hef ekki bloggað í eina fjóra daga, svo að það er kominn tími á að ég láti vita af mér og mínum.

Aðfangadagur var afar góður, ég hélt uppá þann dag með Rússum og Þjóðverjum, látið ekki liða yfir ykkur, en tengdadóttir mín er frá kaldasta hjara veraldar, Síberíu, en sá kuldi nær ekki til hjörtu íbúanna, hjartahlýrri konu en Írínu hef ég sjaldan kynnst.

Við vorum boðnar til vinkonu Írínu og manns hennar sem að er Þjóðverji, hann hélt uppá aðfangadag, hún hélt uppá eitthvað annað, þar sem að hennar og Írínu jól eru í byrjun janúar.

Matarborðið dignaði af ótal réttum, og fleiri föt af lambakjöti voru grilluð og steikt, mikill matur og mikill vodki, ég er frekar lítið fyrir vodkann, læt mér nægja bjór, en óspart var skálað, og í lokin var ég búin að kenna þessu góða fólki  að hrópa skál á Íslensku, að seigja skál á Rússnesku var alltof erfitt.

Í gær jóladag var farið með móður Írenu á veitingastað, gamla konan talar bara Rússnesku, og situr flesta daga fyrir framan sjónvarið og horfir þar á gamlar Rússneskar myndir, verður auðvitað svolítið eins og Palli sem að varð einn í heiminum, en greinilega fannst henni gaman að komast út á meðal fólks, og ekki síst að geta talað sitt eigið mál, þar sem að við vorum á Rússneskum stað, mér tókst samt að ná furðu góðu sambandi við gömlu konuna, mesta furða hvað hægt er að gera sig skiljanlegan með handapati.

Auðvitað var viðstöðulaust skálað, gamla konan var orðin góð í Íslenskunni, hún hrópaði hátt skál og lyfti upp léttilega upp kókglasinu sínu í hvert skipti sem að við hin, öl og vodkafólkið skáluðum.

Í dag er búið að vera gott veður, ég er búin að vera úti í fleiri tíma, ég á eftir tæpa viku hérna á þessum yndislega stað, ef að veðrið verður jafn gott á morgun, þá fer ég á sjálfa ströndina og spóka mig þar í rauða sundbolnum mínum. Óska öllum góðs dags.


Ég sakna þess að fá ekki skötu

Í nótt kom smá rigning, sólin kom ekki almennilega fram fyrr en upp úr hádeigi, ég verð hálf rugluð í dögunum hérna, en veit að í dag er Þorláksmessa, og verð að viðurkenna að ég hefði vel getað hugsað mér að borða vel kæsta skötu með góðum kartöflum og hamsatólg.

Í fyrra var ég heima á Íslandi yfir jól og nýjár, og þá bauð systir mín mér upp á skötu, sem að var svo kæst að ég saup hveljur þegar að ég tók fyrsta munnbitann, svo gekk þetta eins og í sögu, og fæ ég vatn í munninn þegar að ég hugsa um skötuna í fyrra.

Ekki varð ég nú vör við að ég yrði afar náttúrumikil eftir að ég var búin að borða skötuna, en það hlýtur að vera satt að skötuát auki náttúru fólks, varla er fólk að búa það til.

Englendingar eru áberandi hérna í Torreveija, eins Þjóðverjar og slatti af íbúum Norðurlandanna eru hérna, heilmikið af Finnum, alltaf dettur mér í hug vodka og hnífar þegar að ég sé og heyri í Finnum, sem að er mesta vitleysa, Finnarnir eru flestir hverjir ágætisfólk.

Og ég fer í mínar daglegu gönguferðir, ég spila líka Lottó á hverjum degi, í gær vann Englendingur búsettur í Torreveija hæsta vinninginn, ég held að það hafi verið nálægt miljón evrum.

Og í morgun sá ég langa röð af fólki fyrir utan Lottó búðina, sem að seldi Lottó miðann með háa vinningnum, og virtist vera sem að fleiri vildu freista gæfunnar, og spila í þessari litlu búð.

Ég vann líka í Lottóinu, en vinningurinn minn var bara 1,50 evrur, nægði samt til að spila í dag. Kannski kemur í fréttunum í kvöld að Íslensk kelling hafi fengið hæsta vinninginn í Torrevieja.

Læt þetta gott heita.

 


Og enn skín sólin

Frá sólinni á Spáni er allt gott að frétta, jólin nálgast óðum, en lítið fer fyrir þeim hér í Torrevieja, engin jólaljós í gluggum, en jólasveinar hanga sumstaðar við svalirnar hjá fólki sem að er í jólastuði.

Við hérna höldum lítið uppá jólin, tengdadóttir mín heldur uppá sín jól í byrjun janúar, þannig að á aðfangadagskvöld verðum við með góðum vinum, það verður borðaður góður matur og bara haft huggulegt saman.

Svo að hér er ekkert hangikjöt eða jólaskinka, en ég á eftir að lifa það af, hér er svo mikið annað gott, í gær át ég til dæmis, steiktan flatfisk með hrísgrjónum og ávaxtasósu, kannski finnst fólki þetta vera einkennileg blanda, en þetta var mjög gott.

Ég er úti og geng og sit líka í sólinni og fæ mér ölglas öðru hvoru, nýt þess að vera til í góða veðrinu. Auðvitað fer ég öðru hvoru inn í fata og skóbúðir, en verðin eru himinhá, samt eru skilti um 15% til 40% afslátt hjá mörgum búðareigendum, en evran er dýr, og hef ég ekki séð mikið sem að er ódýrt hérna nema bjór og vín.

Í gær fórum við tengdadóttirin og ég á markað, auðvitað röltum við um og kynntum okkur verð og vöruúrval, en sátum mest hjá góðum vinum hennar sem að vinna á veitingastað á markaðnum, þar var urmull af fólki, og þar var yfirfullt af fallegum kisum, sem að eigandi veitingarstaðarins gefur mat alla daga vikunnar, enda virtust kisurnar vera vel á sig komnar og vera pakksaddar, þær litu ekki við risastórum kakalakka, eða kannski að það sé fyrir neðan virðingu kattanna á Spáni að éta kakalakka.

Eftir markaðinn keyrðum við til Murcia, sem að er mikið stærri borg en Torrevieja, meiri borgarbragur á öllu, þar er afar gömul og falleg kirkja, sem að ég skoðaði þegar að ég var hérna síðast, þannig að við fórum ekki í kirkjuskoðun í gær, en skelltum okkur á aðalgötuna, og þar var mikill fjöldi fólks, sem að var greinilega í jólagjafa innkaupum, við röltum um fallega skreytta aðalgötuna, ekkert var keypt, en þess meira skoðað.

Og svo enduðum við góðan dag með því að borða með góðum vinum tengdadóttur minnar á frábærum kínverskum stað.

Læt þetta gott heita frá Torrevieja.


Frá sólinni á Spáni

Í dag var meiri háttar veður um 20 stiga hiti, enda naut ég þess vel að sitja með litla bjórglasið mitt á uppáhaldsstaðnum mínum nálægt sjónum, og hlustaði á fólkið spjalla saman á næsta borði, ég held að þau hafi ekki gert sér grein fyrir að kellingin með plastpokana skildi málið þeirra, en ég lofa að ég seigi engum frá því sem að þið voruð að tala um.

Ykkur finnst kannski skrítið hvað ég er mikið ein, en sonur minn er fastur á skipinu sínu fyrir utan Nígeríu, og tengdadóttir mín er hárgreiðslukona með eigin stofu sem að hún þarf að sinna alla daga vikunnar nema á sunnudögum sem að er hennar frídagur, og á morgun verðum við saman og ætlum að skreppa á markað.

Ég læt þetta gott heita, óska öllum góðrar helgi.


Kveðja frá Spáni

Mér tókst að komast á fætur á kristilegum tíma í morgun, eftir nokkra kaffibolla var ég til allt nema sjálfsmorð, og dreif mig á föstudagsmarkaðinn.

Eins og venjulega var mikið fólk, samt fannst mér eins og að margir væru bara að skoða.

Mér tókst samt að kaupa tvær klukkur, ég er loksins búin að læra að prútta almennilega, systir mín er búin að kenna mér það, en ósvífnari prúttara en henni hef ég aldrei kynnst, en hún fer líka með pálmann í hendinni frá öllu sölufólki. Þannig að mér fannst ég vera nokkuð góð að fá tvær klukkur fyrir smápening, systir mín hefði fengið fjórar klukkur fyrir sama pening, en það er önnur saga.

Ég tilliti mér niður á einum stað sem að seldi kaffi og bjór, fékk mér lítið bjórglas, já ég er orðin eins og hann sem að ég leigi hjá og sem að drekkur bara lítil vínglös. Þar var margt um manninn, mest Spánverjar, ung sígaunakona kom og betlaði, ég gaf henni lítinn pening, Spánverjarnir hófu upp mikil mótmæli, og gáfu mér í skyn með miklu handapati og hrópum að ég ætti alls ekki að gefa þessu liði peninga, ég þóttist skilja allt sem að var sagt við mig, og svaraði öðru hvoru með Si,si, þau urðu ánægð með það, og héldu svo áfram með fyrri umræður sín á milli.

Þjónninn sem að kom með bjórinn handa mér, kom eftir smástund með pínulitlar brauðsneiðar, með Guð má vita hvað ofaná, þetta fékk ég ókeypis með bjórnum, ég þorði ekki að smakka á þessu, ég sá nefnilega að hann var með sorgarrendur undir nöglunum, og var hrædd um að hann hafi smurt brauðið sjálfur. 

Í dag er búið að vera óhemju gott veður, ég hef setið á svölunum og lesið spennandi bók, er hægt að hafa það betra.


Og þá er ég komin til Spánar

Þá er ég komin til Spánar, nánar tiltekið þá er ég í Torrevieja. Fyrsti dagurinn var sólarlaus, en í dag og í gær var hið besta veður, og hugað fólk lá á ströndinni.

Ég lét mér nægja að sitja við ströndina, og horfa á fólkið sem að gekk eftir strandgötunni, þrátt fyrir gott veður þá voru flestir vel klæddir í þykkum jökkum og kuldaskóm.

Áberandi eru þeldökku mennirnir sem að eru að selja sólgleraugu og klukkur, þeir eru eins og flugur út um allt, og bregðast stundum illa við þegar að ég nenni ekki að skoða klukkur eða sólgleraugu, þessir náungar eru ekki löglegir í landinu, og fleita sér áfram á sölu alls kyns dóts, sem að þeir bera með sér, oftast í plastpokum, til að geta hlaupið fljótt þegar að lögreglan kemur í eftirlitsgöngum sínum á strandgötunni.

Það er lítið um að vera í flestum fata og skóbúðum sem að ég hef komið inn í. Ég tala við ungan spánverja, hann ber sig illa, "þessi bölvaða kreppa" seigir hann, en hér á Spáni er talin vera 15% atvinnuleysi, margir eru í erfiðleikum með að láta enda ná saman, ástandið er afar slæmt, sagt er að nú sé hægt að gera góð kaup í íbúðum og húsum fyrir þá sem að eiga peninga.

Ég hef ekki keypt svo mikið í matinn , en keypti ávexti, ost og brauð, ávextirnir voru dýrir, osturinn svipað verð og í Svíþjóð, en brauðið á helmingi lægra verði en í Svíþjóð.

En veðrið svíkur engan, á morgun ætla ég að rölta á föstudagsmarkaðinn, þar er oftast mikið fólk, mikill hávaði í öllum, en spánverjar eru ansi háværir, stundum held ég að fólk sé að rífast, þá eru það ósköp normalar umræður um daginn og veginn.

Læt þetta gott heita frá Spáni.


Er hann að borga fyrir gamlan ost

Er hann að gera þetta fyrir almenning, að opna búðir með vörum á sanngjörnu verði, eða er hann að hefna sín á Baugs feðgum, og borga fyrir gamlan ost. Er þá Jónína í þessu dæmi hjá honum, hún hefur hingað til átt mikið ósagt um Baugs feðgana, ef að ég hef skilið dæmið rétt.
mbl.is Hyggst stofna lágvöruverðsverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rabb um allt mögulegt og ómögulegt

Nú er ég óðum að hressast af þessari flensu minni, er að verða ég sjálf aftur, er hætt að halda til í rúminu, nema auðvitað á nóttunni, ósköp er nú alltaf notalegt að vera í eigin rúmi svona öðru hvoru, til að leiðrétta væntanlegan misskilning þá þarf ég að sofa í vinnunni minni, ég er ekki sofandi hjá út um allan bæ, svona ef að einhverjum datt það í hug.

Ég er búin að lesa helstu fréttir í Mogganum, DV og Vísir. Verð að viðurkenna að mér brá þegar að ég las dánarfrétt Rúnars Júlíussonar, þessa frábæra manns, sem er dáinn langt fyrir aldur fram, ég hélt alltaf uppá hann, og svo fannst mér hann vera svo sexí maður.

Ég rakst á blogg um sölu á hlutum frá Tíbet, virtist vera sem að 10% af sölu yrðu send til líðandi í Tíbet, af einhverjum ástæðum datt mér í hug hvort að ekki hefði verið betra að senda þessi 10% til íslendinga utanlands, sem að virðast vera í stórkostlegum fjárhagsvandræðum, eftir að kreppan margumtalaða skall á og einhverjir eru jafnvel að verða heimilislausir, þar sem að þeim tekst ekki að borga húsaleigu.

Ég er sem betur fer í góðri vinnu, þó að launin séu léleg, en get rétt ímyndað mér örvæntinguna við að vera að missa heimilið sitt, að spara við sig í mat er létt, en hér er fólk rekið á götuna ef að leigan er ekki borguð á réttum tíma.

Hér í húsinu mínu gengur allt sinn vanagang, ég fæ morgunblaðið inn um bréfalúguna frá nágrönnum mínum. Hans á fyrstu hæðinni er búinn að raka af sér Hitlers skeggið, hann er síbrosandi þessa dagana, enda kominn með yndisfagrar og mjallahvítar tennur, hann gæti tekið þátt í tannkrems auglýsingu og bæri af þar.

Hjúkkan á þriðju hæðinni er grunuð um græsku, hún er greinilega að reyna að komast í vinfengi við annan eiganda hússins okkar, hjá honum sem að er ekkjumaður og drekkur bara lítil vínglös. Gunnel og Hans gruna hjúkkuna um að vera að semja um lægri húsaleigu, og að þess vegna láti hún líkindalega við húseigandann, ég bað þau um að fylgjast vel með þessu, og fannst mér nú að þau gætu boðið hjúkkunni í kaffi, svona til að fá nánari upplýsingar. Ég hef svo lítinn tíma í njósnir, en ef að þau hafa rétt fyrir sér, þá verðum við hin sem að búum hérna að láta vel að hinum eigandanum.

Og nú læt ég þetta gott heita.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Heidi Helga

Höfundur

Heiður Helgadóttir
Heiður Helgadóttir
Kona á besta aldri, konur eru jú alltaf á besta aldri, ég er frekar stutt, ég þykist alltaf vera svolítið léttari en ég er, og skónúmer mitt er 39.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • bild1
  • 4130 P 1282609870763
  • 4085 P 1282005836254
  • 4071 P 1281936149867
  • bild1
Leita í fréttum mbl.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband