Færsluflokkur: Lífstíll

Sú saga gengur ljósum logum í vinnunni hjá mér, að ég sé að fara heim til að bjarga ykkur og landinu frá öllu illu

Í vinnunni hjá mér gengur sú saga, að ég undirrituð hafi verið inni á netinu að skoða flugferðir til Íslands, og þegar að ég fann eina á góðu verði, þá hafi ég keypt hana, og hafði orð á því, að nú yrði ég að fara heim og redda málunum, þetta væri ekki hægt, landið væri komið á hausinn og allt í steik, nú skreppi ég heim og frelsaði landið og íbúa þess frá þessum ósköpum.

Auðvitað er sannleikurinn sá, að ég er búin að kaupa farmiða til Íslands á góðu verði, en um leið og ég frelsa landið, og læt ættingja mína stjana við mig, þá er ætlunin að mæta í fermingu hjá tvíburadrengjum sem að eru hálfbræður barnabarnsins míns, þeir eru ekki alvöru barnabörnin mín, en í hjarta mínu og þeirra, þá er ég alvöru amma þeirra.

Þannig að í Mars kem ég og frelsa ykkur frá öllu illu, ef það tekst ekki hjá mér, þá skelli ég mér bara á mótmælafund með þeim sem að eru ennþá að mótmæla, kannski sé ég líka einhvern rassskelltan, en mér fannst ég sjá eitthvað um það í blaðinu.

Ég þakka ykkur öllum sem að sendu mér kveðjur eftir síðasta blogg hjá mér, hef ekki farið inn og svarað, ástæðan er sú að tölvurnar hjá okkur eru svo seinar, að það tekur óratíma að hoppa á milli.

Á miðvikudaginn fer ég heim, Hallelúja.

 


Bókin um pabba

Er í höfn í Þýskalandi, hér skín sólin, en það er kalt.

Uppsagnir eru byrjaðar hjá okkur, eins og á öðrum vinnustöðum, í þetta skipti var 45 manns sagt upp vinnunni, og er beðið eftir því að fleiri höfuð fjúki.

Þetta skapar auðvitað leiðinda móral, og miklar bollaveltangar yfir framtíðinni, en ég er búin að venja mig á að taka deginum eins og að hann kemur, óþarfi að búa til fyrirfram áhyggjur.

Það er lítið að gera hjá okkur, miðað við fyrri ár, og þar sem að evran er svo dýr, þá er fólk ekki að fara mikið út fyrir utan landsteinana.

Ég tók með mér bókina "Myndin af pabba" sænska útgáfu, og gengur hún manna á milli, og er dáðst að því hvað bókin er vel skrifuð og um leið vel þýdd. Auðvitað er frásögnin ekki falleg, og fjallar um hluti sem að eru því miður alltof algengir.

Læt þetta gott heita.


Þá er kominn....................................................................

Þá er kominn miðvikudagur, vinnuvikan byrjar hjá mér í dag, framundan eru sjö dagar úti á sjó, í veltingi eða á sléttum sjó.

Í gærkvöldi var fegrunarkvöld, þið vitið svona kvöld þegar að kellingar reyna að flikka uppá útlitið, með misjöfnum árangri.

Naglaböndum var ýtt upp, neglur voru gerðar jafnar og fínar, auðvitað lakkaðar. Fætur voru raspaðir(næstum því til blóðs) síðan smurðir inn í kremi.

Augabrýr voru litaðar, síðan reyttar, æ,æ, (hvað maður leggur á sig), stundum vildi ég vera kall, þeir þurfa ekki að gera svo mikið fyrir útlitið, flestir hverjir, ekki mín kynslóð, ungu strákunum finnst gaman að líta vel út, og nota gjarnan alls konar krem og lita á sér hárið. Annars er fátt eins sjarmerandi og menn með grátt í vöngum, og þeir sköllóttu eru líka meiriháttar.

Í gær snjóaði hérna í Malmö, þegar að ég var að bardúsa með lappirnar á mér, þá varð mér óvart litið út um gluggann, og niður svifu stærðarinnar snjóflögur, mér datt í hug að þarna væri jólasnjórinn loksins kominn.

Nú slæ ég botninn í þetta, en óska ykkur öllum góðrar viku, ég lít inn til ykkar, þó svo að ég geri ekki vart við mig, verð hálfgerð huldukona næstu daga.


Þetta er eins og spennandi framhaldssaga

Þetta er að verða eins að lesa spennandi framhaldssögu, að opna Moggann á morgnana og sjá hvað hefur skeð síðan í gær, í mótmælastríðinu.

Ekki hefði  verið dónalegt að fá hljómleika svona í morgunsárið, en Davíð hefur trúlega ekki þakkað fyrir músíkina.

En sefur ekki Davíð bara í Seðlabankanum, kemur til greina að hann sé búinn að flytja heimilisfangið sitt þangað og ætli sér að kúra þar til æviloka.


mbl.is Bubbi rokkar Seðlabankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hitt og þetta á miðjum mánudegi

Þá er kominn mánudagur, mörgum finnst mánudagur vera leiðindadagur, mér finnst mánudagar ekkert leiðinlegir, kannski er það vegna þess að vinnuvikan hjá mér byrjar á miðvikudögum, og þar að leiðandi finnst mér miðvikudagar vera leiðindadagar.

Ég er búin að sitja við lestur hinna og þessara á blogginu, margt skemmtilegt fólk lætur í ljósi skoðanir sínar. Auðvitað er mikið skrifað um hann Davíð, ég hef svo lítið vit á þessum málum, og þori alls ekki að skrifa um þessi vandræðamál, verð samt að viðurkenna að ég er alveg hissa á því hvað hann Davíð er góður á tauginni, ég væri fyrir löngu lent inni á hæli stútfull að róandi pillum, ef að ég væri í hans sporum.

Margir góðir pennar eru hérna á blogginu, en það sem að kemur mér á óvart er að það virðist vera einhverskonar skítkast í gangi, þetta hef ég orðið vör við þegar að ég les athugasemdirnar hjá bloggurum. Ég get alls ekki skilið ánægjuna í að vera að hnýta í hvort annað hérna, við erum ákaflega misjöfn eða mislitur hópur, og engin ástæða til annars en að taka tillit til þess, allir hafa rétt til þess að láta í ljósi skoðun sína, svo lengi sem að ekki er farið út í persónulegt skítkast.

Nú er ég þurrausin, læt þetta gott heita. Óska öllum góðs dags.

 


Nýjir Pólverjar

Ef að ég man rétt þá fór mikill fjöldi Íslendinga til Svíþjóðar og annarra landa í fyrir þrjátíu og fimm árum, eða voru það fjörutíu ár, en þá var atvinnuleysið mikið heima á Íslandi.

Sumir eða flestir fóru svo heim aftur, þegar að ástandið varð betra, er ekki sagan að endurtaka sig.

Nema að það er mikið erfiðara að fá vinnu í öðrum löndum í dag, kreppan er komin út um allt.

En mér svona datt í hug hvort að Pólverjarnir væru jafn margir á Íslandi, kemur til greina að þeir séu með vinnu á Íslandi, en að "landinn" þurfi að hrekjast til annarra landa í vinnuleit.


mbl.is Íslendingar „nýju Pólverjarnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaka ársins vekur bernskuminningar

Mig dauðlangaði til að blogga um köku ársins, ég fékk nefnilega vatn í munninn þegar að ég sá mynd af þessari glæsilegu köku.

 Minnti mig svolítið á djöflatertuna sem að móðir mín bakaði í gamla daga, enginn gat bakað eins góða djöflatertu og hún, ekki veit ég hver uppskriftin var, eða hvað varð um hana, en enn þann dag í dag þá man ég eftir góða súkkulaðibragðinu (Síríus suðusúkkulaði), og að tertan bókstaflega bráðnaði í munninum á mér.

Þegar að ég var ung þá tíðkaðist ekki að borða bláber með súkkulaðitertum, en smá rjómaslettu gat maður fengið á hátíðadögum, og féll það oftast í minn verkjahring að þeyta rjómann með handþeytara. Ég sem að þjáðist af leti í mínum ungdóm, þótti óvenju ólöt við rjómaþeytinginn, það þurfti ekki að margspyrja mig hvort að ég nennti að þeyta rjómann, ástæðan var auðvitað sú að mér þótti rjómi óskaplega góður, og um leið og að ég þeytti rjómann þá stakk ég puttanum niður í rjómann og fékk mér vænar rjómasleikjur, hefði einhver komið að mér, þá hefði ég borið því við að ég væri að athuga hvort að rjóminn væri orðinn mátulega þykkur.

Mér þóttu smákökur óskaplega góðar þegar að ég var lítil, en þá voru alltaf til fínar smákökur fyrir gesti, og voru þær geymdar í dunkum í efstu hillunni í eldhúsinu. Ég þarf ekki að taka fram að þessar yndislegu kökur voru bara fyrir gesti, en ef að ég var heppin þá fékk ég að drekka með gestunum þegar að þeir komu, og passaði þá uppá að fá mér  margar kökur þangað til að móðir mín var farin að stoppa mig.

Auðvitað gleymdi ég ekki dunkunum með smákökunum góðu, og fór svo að taka uppá því að ná í stól og koll sem að ég klöngraðist uppá og tókst að ná upp í hilluna þar sem að kökurnar góðu voru geymdar, ég man að ég var afar varkár og tók bara eina af hverri sort, tókst svo að komast slysalaust niður. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum, og var ég orðin hin liðugasta við prílið uppá stóla og palla, þangað til að einn góðan veðurdag þá gat ég ekki opnað kökudúnkinn, þá var búið að líma lokið á hann, og ekki nóg með það, þar var miði með eftirfarandi orðum "mundu að Guð sér þig þegar að þú stelur kökum".

Ég þarf varla að taka fram að ég varð óskaplega hrædd, ég þuldi örugglega fjálglega faðirvorið um leið og ég hreinlega datt niður, og eftir þetta fengu gestasmákökurnar að vera í friði fyrir mér.

 


Það eru greinilega engin takmörk......................................

Það eru greinilega engin takmörk fyrir því hvað fólk gerir lítið úr sér, Væri ég kall með hatt, þá tæki ég ofan fyrir piltinum sem að varð á að blogga um peningasukk yfirmannsins.
mbl.is Bloggari rekinn fyrir skrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er lífið svo stutt

Í kvöld var hringt í mig frá Íslandi, og mér var sagt lát konu á besta aldri, ég var reyndar búin að frétta af veikindum hennar, en gerði mér ekki grein fyrir að þau væru svona alvarleg.

Við þessa frétt fór ég að hugsa um hvað lífið væri stundum skrítið, í þessu tilfelli var þetta kona sem að var búin að eiga margar erfiðar stundir í sínu lífi, en síðustu árin voru búin að vera léttari, hún eignaðist góðan mann, og var hamingjusöm með honum, og svo deyr hún þegar að allir bitarnir voru komnir á sinn stað, og allir héldu að núna færi hún að njóta lífsins, njóta alls þess sem að hún hafði ekki getað gert áður.

Í gær var líka hringt í mig frá Íslandi, en það voru engar dánarfregnir sem að betur fer, en það var kona sem að lenti í skilnaði sem að varð ákaflega erfiður fyrir hana, og mörg tárin voru felld. En hún var svo heppin að kynnast góðum manni, sem að hafði sjálfur gengið í gegn um sömu erfiðleikana, og þar fundu tvær góðar sálir hvor aðra. Þrátt fyrir góðar stundir með nýja manninum þá ólgar hún inní sér af reiði út í fyrri manninn, og er ég stundum hrædd um að þessi biturleiki eigi eftir að fara illa með hana og jafnvel eyðileggja gleðina yfir nýja manninum sem að vill allt fyrir hana gera.

Sannleikurinn er sá, að við eigum að reyna að njóta hverrar gleðistundar, hver veit nema að það sé sú síðasta, við eigum að reyna að fyrirgefa og gleyma, munum eftir góðu hlutunum, gleymum smáhlutunum sem að pirra okkur öðru hvoru, og okkur á eftir að líða mikið betur.

Enginn er fullkominn sem að betur fer, og öðru hvoru verðum við jafnvel að sætta okkur við að þurfa að byrja uppá nýtt, snúa bakinu við fortíðinni, en taka á móti framtíðinni með opnum örmum.


Veit ekki hvort að ég ætla að skilja við tölvuna mína

Jæja, loksins læt ég verða að því að blogga, en tölvan mín er ennþá í óstandi, eða bansettu ástandi, ég ræð ekkert við hana, og þeir sem að áttu að lækna hana af þessari vitleysu, réðu ekki við neitt.

Það gekk svo langt að ég var farin að hugsa um skilnað, ég var farin að laumast inn í tölvubúðir, farin að skoða aðrar tölvur, var farin að gefa öðrum yngri og fallegri tölvum hýrt auga, en ákvað svo að gefa henni einn séns, svona eins og að maður gerir áður en að það er sótt um skilnað, en auðvitað ef að tölvan fer ekki að haga sér almennilega, þá verður skilnaður, og hún lendir út í ruslatunnu.

Annars er tíðindalaust hérna í Svíþjóðinni, nema að kvefpestir herja hérna, og varð undirrituð svo illa kvefuð að ég fór heim úr vinnunni, og er búin að vera óttalega nefmælt, fólk hefur átt erfitt með að skilja mig þegar að ég hef verið að reyna að tjá mig um veikindi mín, eða kannski vildu þau ekki skilja mig, skrítið hvað fólk er tillitslaust þegar að ég verð veik, oft þarf ég að hlusta á langar veikindasögur hjá öðrum, það hafa verið klukkutíma fyrirlestrar um bakveikindi og botnlangabólgur, og ég hef verið svo þolinmóð að hlusta á þetta, en sömu manneskjur næstum því skella á mig þegar að þau heyra að ég er orðin veikluleg í röddinni.

 En þetta er allt saman að lagast, og í kvefinu er ég búin að horfa á margar góðar myndir, það ósköp notalegt að liggja fyrir, með hlýja sæng, stóra kodda og jafnvel dotta öðru hvoru. En látið ykkur ekki detta í hug að ég sé með dúnsængur og kodda, ég er dýravinur og myndi aldrei láta það spyrjast um mig að ég lægi með sæng fulla af dún sem að er reitt af varnarlausum fuglum, ég sá þátt um daginn, hann var það ógeðslegur að ég gat ekki horft á hann allan, en þar var sýnt þegar að fuglagreyin voru reitt til þess að fá dún. Og hefði ég átt dúnsæng, þá hefði sú sæng farið beint út í öskutunnu.

Nú slæ ég botninn í þetta, enda orðið alltof langt. Óska öllum góðs kvölds.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Heidi Helga

Höfundur

Heiður Helgadóttir
Heiður Helgadóttir
Kona á besta aldri, konur eru jú alltaf á besta aldri, ég er frekar stutt, ég þykist alltaf vera svolítið léttari en ég er, og skónúmer mitt er 39.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • bild1
  • 4130 P 1282609870763
  • 4085 P 1282005836254
  • 4071 P 1281936149867
  • bild1
Leita í fréttum mbl.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband